133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:08]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er í raun ömurlegt að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar í þessu máli, um fjárlög sem eru einhver bestu fjárlög sem Alþingi hefur afgreitt.

Ég var einn af þeim forustumönnum ríkisstjórnarinnar sem sat í ráðherrabústaðnum þegar sú stund var í höfn að eldri borgarar náðu, eftir vinnu Ásmundar Stefánssonar og fleiri, sáttargjörð um að fá á næstu 4 árum 27 milljarða kr. til viðbótar til að bæta kjör sín. Það var stór stund. Það var ekki stund tára, það var stund gleði. Þess vegna er þetta yfirboð sem hér er lagt fram.

Þegar menn hafa gert samkomulag þá hafa þeir gert samkomulag og standa við það. Það þekkir enginn betur en verkalýðsleiðtoginn Ögmundur Jónasson. Þá stunda menn ekki yfirboð þannig að málflutningur stjórnarandstöðunnar er enn sá sami, að reyna að æsa til ófriðar í íslensku samfélagi. Þeir viðurkenna ekki að staðan á Íslandi er betri en nokkru sinni fyrr (Gripið fram í.) og að margir fá kjarabætur (Gripið fram í.) sem eru mikilvægar. (Forseti hringir.) Sem betur fer eru eldri borgarar og öryrkjar í þeim hópi. (Forseti hringir.) Ég segi nei.