133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:13]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ótrúleg skammsýni hjá ríkisstjórninni að rýmka ekki meira frítekjumark lífeyrisþega til að auðvelda þeim atvinnuþátttöku. Allir vita að það er ekki aðeins betra fyrir lífeyrisþegana sjálfa heldur samfélagið í heild.

Staðan er sú að skerðingarreglurnar sem lífeyrisþegarnir búa við eru hrein eignaupptaka samanber dæmið um lífeyrisþegana sem eru með 110 þús. kr. í tekjur og afla sér 10 þús. kr. atvinnutekna. Þeir halda eftir af 10 þús. kr. aðeins 1.500 kr. eftir skatta og skerðingar. Það er auðvitað hrein skömm fyrir ríkisstjórnina hvernig hún stendur að málinu.

Það er ástæða til að vekja athygli á því að þótt verið sé að rýmka frítekjumark lífeyrisþega þá er ekkert gert fyrir öryrkjana. Það er engin breyting hjá öryrkjunum að því er varðar frítekjumark. Það vita auðvitað allir nema ríkisstjórnin hve mikilvægt er að rýmka frítekjumarkið. Ég segi bara: Hafi þessi ríkisstjórn skömm fyrir hvernig hún stendur að málum. Ég segi já.