133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:31]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum að greiða atkvæði um að tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. frá áramótum og öryrkja 86 þús. kr. Við erum að greiða atkvæði um að minnka tekjutengingar þannig að þær fari úr 45% í 35%. Við erum að greiða atkvæði um að sjúklingar á hjúkrunarstofnunum fái helmings hækkun á vasapeningum. Þeir fengu ekkert hjá ríkisstjórninni í sumar, ekki neitt. Þeir voru skildir eftir.

Við leggjum til að fólk haldi aldurstengdri örorkuuppbót sinni þegar það fer á ellilífeyri og viljum afnema tengingar við tekjur maka. Við erum að greiða atkvæði um það og einnig að fólk haldi eftir 75 þús. kr. af lífeyri sínum þegar það fer inn á stofnun eða á lífeyrisgreiðslur.

Ætla menn að segja nei við þessu eins og sést á töflunni? Þetta segir allt um þessa ríkisstjórn. Ég bið lífeyrisþega og landsmenn alla að hafa þetta hugfast, viljaleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum lífeyrisþega. (Forseti hringir.) Ég bið þá að hafa þetta hugfast í kosningunum í vor. Ég segi já.