133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:48]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér þann munað að halda hv. þingmanni í spennu fram eftir degi þangað til afstaða mín í þessu máli kemur í ljós. Það liggur náttúrlega alveg fyrir að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, meiri hlutinn og ríkisstjórnin hafa gert okkur í minni hlutanum ókleift að flytja hér breytingartillögur við þetta frumvarp með sama hætti og ASÍ. ASÍ kallaði eftir gögnum, en fékk ekki, til að geta unnið tillögur sínar að breytingu með líkum hætti og við hefðum gert hér ef við hefðum fengið umbeðin gögn.

Það er svo mikill dónaskapur í þessu máli, virðulegi forseti, af hálfu ríkisvaldsins. ASÍ sendi tölvupóst fyrir fimm vikum þar sem beðið var um þessi gögn og það var ekki virt viðlits, ASÍ fékk ekkert svar við þessum tölvupósti þar sem beðið var um þessi gögn til að það gæti unnið tillögur sínar og lagt þær fram í nefndinni. Með sama hætti er okkur í nefndinni gert ókleift að leggja fram breytingartillögur með alveg sömu forsendum og rökum og ASÍ, nákvæmlega sömu rökum.

Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð, það er vanvirða við þingið að haga sér svona gagnvart stjórnarandstöðunni, og síðan er það líka lítilsvirðing gagnvart ASÍ sem gerði þá kröfu í sumar að fá fram leiðréttingu að gögnum sé haldið frá því til þess að það geti ekki sett fram sínar tillögur.

Síðan varðandi vaxtabæturnar. Það er alveg nýtt fyrir mér ef það er virkilega svo að fólk sem skuldsetur sig vegna heimsreisu eða hvað það nú er sem ekkert er tengt íbúðarhúsnæði geti fengið vaxtabætur út á það. Þá er bara eitthvað að í skattkerfinu. Aldrei mundi mér detta í hug ef ég skuldsetti mig fyrir einhverju öðru en húsnæði að fara að setja það fram með þeim hætti á skattframtalinu að ég gæti fengið út á það vaxtabætur. Ég skal viðurkenna það að ef þetta er virkilega svona í framkvæmd (Forseti hringir.) er eitthvað að í vaxtabótakerfinu og ég hefði gaman af að spjalla við ríkisskattstjóra (Forseti hringir.) um það.