133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn fá ekki vaxtabætur út á þá eyðslu eða þær skuldir. Það er misskilningur hv. þingmanns. Hins vegar eru vaxtabæturnar skertar miðað við eign manna. Ef menn eiga mikla eign eru þær skertar meira. Þá er verið að tala um eign mínus skuldir. Menn fá ekki vaxtabætur út á heimsreisuna, allan vaxtakostnaðinn í kringum það, heldur minnkar heimsreisan eignirnar um milljón og við það skerðast vaxtabæturnar minna sem þær ella hefðu gert af því að hjónin eiga milljón kr. minna í nettóeign og fá 66 þús. kr. meira í vaxtabætur, þ.e. skerðingin verður 66 þús. kr. minni af því að þau eiga milljón kr. minna. Ég hélt að hv. þingmaður skildi þetta. Þarna koma sem sagt ekki vextir af þessum skuldum, alls ekki, þeir eru bara á skuldum tengdum húsnæðinu.

Það er ekki rétt að menn geti ekki lagt fram hugmyndir eða tillögur án þess að fá upplýsingar og alla skattskrána í heilu lagi, heldur geta menn að sjálfsögðu sest niður og reiknað út ýmiss konar dæmi fyrir skjólstæðinga sína og skattgreiðendur. Ég er búinn að gera það, ég er búinn að setja niður alls konar dæmi fyrir fólk sem er með námslán, fólk sem er nýbúið að kaupa, fólk sem er búið að kaupa fyrir löngu síðan, fólk sem býr úti á landi sem iðulega hagnast á þessu eða fólk sem býr hér í Reykjavík þar sem íbúðarverð hefur hækkað um 30%. Ég hef líka tekið dæmi um það að menn eigi hlutabréf og að þau hækki. Þetta er ég búinn að reikna allt út. Niðurstaðan er nánast hvað sem er frá því að menn hagnist um einhver prósent upp í það að þurfa að hækka eignamörkin um 370%, það var það hæsta sem ég fann.

Hvað gera menn? Menn taka eitthvert meðaltal, menn taka það meðaltal sem gefur nánast sama og fjárlögin gerðu ráð fyrir og þó eilítið betur. En menn skulu ekki láta sér detta í hug (Forseti hringir.) að þeir nái öllum tilfellum.