133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[13:56]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða hér við 2. umr. frumvarp sem lýtur að vaxtabótum. Stjórnarandstaðan leggur sameiginlega fram minnihlutaálit í efnahags- og viðskiptanefnd og gerir þar alvarlegar athugasemdir.

Fyrsta athugasemdin lýtur að vinnubrögðunum í þessu máli. Fram kom í vinnu nefndarinnar að Alþýðusamband Íslands hafi ekki fengið þau gögn sem það taldi sig þurfa til að geta lagt mat á skerðinguna. Það er ámælisvert, sérstaklega í ljósi aðdragandans að þessu máli sem laut að samkomulagi eða yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í viðræðum við ASÍ og aðila vinnumarkaðarins þegar kom að kjarasamningum. Þess vegna er það mjög alvarlegt þegar Alþýðusamband Íslands telur að boðað samráð hafi ekki verið til staðar eða uppfyllt að öllu leyti. Sömuleiðis hefur verið bent á að þeirri leið sem hér er farin hafi Alþýðusambandið hafnað fyrr í sumar og því er alveg ljóst að engin sátt er um aðgerðir ríkisstjórnarflokkanna.

Mig langar mig að vitna í það sem forseti Alþýðusambandsins segir á heimasíðu sinni nú í morgun. Hann er harðorður í garð ríkisstjórnarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin lofaði því í sumar við endurskoðun kjarasamninga, að tekið yrði á vanda þess fólks sem missir nú stóran hluta vaxtabóta sinna — eða jafnvel allar bæturnar — fyrir þær sakir einar að fasteignamat hækkar milli ára.

Fólk hefur ekkert meira á milli handanna þó fasteignamatið hækki. Þvert á móti, það hefur minna vegna þess að talsverður hluti fær nú ekki vaxtabæturnar. Það verður ekki horft fram hjá því að ríkisstjórnin gaf loforð í sumar um að tekið yrði á þessum vanda strax og þing kæmi saman nú í haust og að samráð yrði haft við verkalýðshreyfinguna um nauðsynlegar breytingar. Þrátt fyrir að ASÍ hafi ítrekað leitað eftir samráði nú í haust og vetrarbyrjun var í engu orðið við því og óskum ASÍ um aðgang að nauðsynlegum gögnum ekki einu sinni svarað. Niðurstaðan eins og hún stefnir í að verða er með öllu óviðunandi og kemur ekki til móts við vanda þeirra þúsunda sem nú fá skertar eða engar vaxtabætur. Við bentum á þetta strax í sumar og höfum gert það ítrekað síðan. Það er ekkert hægt að lýsa þessari niðurstöðu öðruvísi en svo að hér sé um hreinar vanefndir að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar.“

Þetta segir forseti Alþýðusambandsins nú í morgun um þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja að við lögfestum og förum hér í dag.

Að sjálfsögðu áttum við að standa við gefin loforð við verkalýðshreyfinguna. Að sjálfsögðu áttum við að uppfylla það markmið sem laut að því að gera fólk jafnsett fyrir hækkunina á fasteignamatinu. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Það er einfaldlega ekki gengið nógu langt.

Það er sömuleiðis mjög alvarlegt þegar Alþýðusambandið telur að hér sé um að ræða hreinar vanefndir og það verður fróðlegt að sjá viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar á næstu dögum í ljósi þess að verkalýðshreyfingin lítur á þetta sem hluta af samkomulagi sem var gert hér í sumar til að tryggja frið á vinnumarkaðnum. Leiða má líkur að því að sá friður sé væntanlega úti.

Önnur meginathugasemd stjórnarandstöðunnar lýtur að efni frumvarpsins sem, eins og ég kom áður að í mínu máli, gerir fólk ekki jafnsett fyrir hækkun á fasteignamatinu. Við höfum dæmi um einstaklinga sem eru í nákvæmlega sömu stöðu og áður en missir síðan vaxtabæturnar eða verður fyrir skerðingu í ljósi þess að fasteignamatið hefur hækkað. Þetta fólk fær talsverðan skell. Þetta eru ekki litlir fjármunir sem snerta viðkomandi fjölskyldu. Þetta getur hlaupið á hundruðum þúsunda. Þetta eru fjármunir sem fólk hefur jafnvel haft ákveðnar væntingar um að fá og þess vegna er þetta mjög bagalegt fyrir margar fjölskyldur.

Í þessu samhengi þarf að minnast þess að Íslendingar hafa aldrei verið eins skuldugir og einmitt í dag. Íslensk heimili skulda um 1.200 milljarða kr. sem er meira en landsframleiðslan. Skuldir heimila hafa aukist um 30% á einu ári. Hér er því um að ræða mjög skuldug heimili, skulduga landsmenn sem hafa í mörgum tilvikum gert ráð fyrir að fá sinn skerf af vaxtabótunum en fá hann ekki. Það þarf að hafa í huga að fæstir eru að kaupa eða selja húsnæði sitt. Menn ráðast væntanlega í þá fjárfestingu tiltölulega sjaldan. Þó að fasteignamatið hafi hækkað og þetta fólk búi nú í verðmætari húsum þá hefur hins vegar engin önnur breyting átt sér stað enn. Fólk hefur ekki fengið fjármunina í hendurnar ef svo mætti segja þó að það verði fyrir einhvers konar auðsáhrifum eins og þekkt er.

ASÍ hefur bent á að þessi leið ríkisstjórnarinnar komi sérstaklega niður á lágtekju- og millitekjufólki. Þeir nefna það þótt eflaust sé hægt að finna dæmi um hitt. Í minnihlutaáliti stjórnarandstöðunnar stendur að í mörgum tilvikum sé ekki um neina leiðréttingu að ræða hjá fólki með lágar tekjur og meðaltekjur, þrátt fyrir þessa hækkun á eignastuðlinum, sem er algjörlega óviðunandi. Skýrist það af því að skerðing vaxtabóta, sem hefst þegar eignin nær 6,2 millj. kr. en þær falla alveg út þegar hún er orðin 9,9 millj. kr., er á svo þröngu eignabili að gífurleg hækkun á fasteignamati, allt upp í 35% þar sem það hækkaði mest, kemur í veg fyrir nokkra leiðréttingu vaxtabóta, þrátt fyrir 25% hækkun á eignastuðlinum.

Einnig vert að hafa í huga að fasteignaverð eða fasteignamat hefur aukist mismikið eftir því hvar fólk býr. Leiða má líkur og rök að því að höfuðborgarbúar fari verr út úr þessu en aðrir. Þegar ég tala um höfuðborgarbúa þá leyfist mér að segja að við séum að ræða um langstærstan hluta landsmanna í ljósi þeirrar staðreyndar að 65% þjóðarinnar býr á einu prósenti landsins, hér á höfuðborgarsvæðinu. Enda er Ísland eitt mesta borgríki sem fyrirfinnst. Stór hluti af landsmönnum hefur sem sagt búið við mjög hækkandi fasteignamat og verður síðan fyrir skerðingu eins og þeirri sem hér hefur verið lýst.

Þetta hefur einnig áhrif á væntingar fólks, þ.e. það hafði hugsanlega og í mörgum tilvikum væntingar um að fá eitthvað í vaxtabótunum eins og það hefur hugsanlega fengið undanfarin ár þótt það sé að sjálfsögðu ekkert áskrifendur að þeim, langt í frá. Hins vegar hagar fólk sér eftir því hvernig fortíðin hefur farið með það og fólk hefur ákveðnar væntingar um hvernig staða þess verður á næsta ári.

Að mínu mati er hér því komið aftan að fólki. Við erum ekki að ná að uppfylla það markmið sem við settum okkur og ríkisstjórnin, að minnsta kosti í sumar, þ.e. að fólk sé jafnsett gagnvart þessari miklu hækkun á fasteignamatinu. Við og verkalýðshreyfingin höfum bent á að fólkið er ekki jafnsett eftir að þessi leið ríkisstjórnarflokkanna hefur verið farin. Kannski kemur þetta ekki á óvart, herra forseti, í ljósi forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar. Nefna má ýmis önnur atriði í efnahagsmálum þessa lands og ríkisstjórnarinnar sem benda öll í eina átt, þ.e. að þrengja að hinum venjulega Íslendingi.

Við höfum nú þegar staðfestingu á því, meira að segja frá hæstv. fjármálaráðherra, að skattbyrði hafi aukist á öllum tekjuhópum nema þeim tekjuhæsta, þ.e. topp 10%. Þar hefur skattbyrðin lækkað. Hins vegar hefur hún hækkað hjá öllum öðrum á valdatíma þessarar ríkisstjórnar. Við búum enn þá við eitt hæsta matvælaverð í heimi og ríkisstjórnarflokkarnir neita enn að ganga alla leið eins og við í Samfylkingunni viljum gera til að tryggja hér Evrópuverð á matvælum. Áfram verður því matarverð á Íslandi með því hæsta í heiminum. Einnig var fróðlegt að sjá við afgreiðslu fjárlaga í morgun að ekkert var komið inn á boðaðar tollalækkanir. Það er eins og ekki sé gert ráð fyrir þeim þó ríkisstjórnarflokkarnir hafi boðað að þær eigi að taka gildi 1. mars næstkomandi. Annaðhvort eru þær í algeru uppnámi eða það illa undirbúnar að ríkisstjórnarflokkarnir gátu ekki komið þeim í fjárlögin. Þeir ætla því að nota gömlu aðferðina og taka á því með öðrum hætti fram hjá fjárlögum eins og við þekkjum. En þrátt fyrir að þeir lögfesti sínar tollalækkanir er alveg ljóst að þar er alls ekki gengið nógu langt að mínu mati og margt skilið eftir sem mun viðhalda hinu háa matarverði.

En það er eins og ríkisstjórnin telji það vera einhvers konar náttúrulögmál að allt þurfi að vera dýrt á Íslandi. Það er ekki nóg með að skattbyrðin hafi verið þyngjast og matvælaverðið sé með því hæsta sem þekkist. Við búum við gríðarlega hátt bensínverð, hátt lyfjaverð og háa vexti, en vextir eru að sjálfsögðu ekkert annað en verð á peningum.

Þetta er allt afrakstur efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar sem hefur svo sannarlega gengið sér til húðar. Ríkisstjórnin hefur sýnt fram á að hún þarf á hvíld að halda því hinn óstöðugi stöðugleiki heldur áfram í efnahagslífinu eins og allir hafa bent ríkisstjórninni á hvort heldur það eru stjórnarandstöðuflokkarnir, greiningaraðilarnir eða jafnvel Seðlabankinn. En ríkisstjórnarflokkarnir þráast við og kasta hér fram einhvers konar glansmynd sem aldrei stenst þegar á hólminn er komið.

Leið ríkisstjórnarflokkanna í vaxtabótunum með því að koma aftan að fólki, ungu fólki, skuldugu fólki, ætti kannski ekki að koma á óvart. Sömuleiðis kemur hún kannski ekki á óvart í ljósi skoðana sem margir stjórnarliðar hafa látið í ljós, þ.e. að þeim er einfaldlega í nöp við vaxtabótakerfið. Jafnvel vilja þeir sumir leggja það af með öllu og hafa gefið það sterklega til kynna. Sömuleiðis er það gert í meirihlutaáliti stjórnarflokkanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að hafin verði endurskoðun á vaxtabótakerfinu þar sem það hafi augljósa agnúa. Má þar nefna, líkt og fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands, að niðurgreiðsla á lánsfé er til þess fallin að auka skuldsetningu almennings og draga úr sparnaði. Meiri hlutinn telur ekki heppilegt að hvetja fólk til skulda á þann hátt og vill að hugað sé að gjörbreytingu á þessu kerfi.“

Það væri gaman að ræða hvaða leið ríkisstjórnarflokkarnir vilja fara í þessu vaxtabótakerfi. Vilja þeir leggja það algerlega niður eða vilja þeir standa vörð, eins og stjórnarandstöðuflokkarnir, um kerfi sem á fyrst og fremst að koma til móts við skuldugt lágtekjufólk og millitekjufólk? Í ljósi þess sem við vitum um skuldastöðu heimilanna er talsverð þörf á því að vega á móti hinni slæmu skuldastöðu íslenskra heimila.

Að lokum ítreka ég að stjórnarandstaðan er ósátt við þá leið sem farin er. Hún telur að samkomulagið við verkalýðshreyfinguna hafi ekki verið uppfyllt. Verkalýðshreyfingin hefur bent á það sjálf. Vinnubrögðin hafa verið mjög sérkennileg. Gögn hefur skort og umræðan í efnahags- og viðskiptanefnd hefur verið á stundum sérkennileg í því ljósi. (Gripið fram í.) Efnislega gengur þetta frumvarp alls ekki nógu langt. Ríkisstjórnin nær ekki því markmiði að láta fólk vera jafnsett eftir þetta frumvarp og það var fyrir hækkun á fasteignamatinu.