133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[14:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um vaxtabótamálið. Þegar á síðasta vori, hæstv. forseti, áður en þingi lauk var bent á þann vanda sem hér er um að ræða. Talið var að til þessa mundi draga varðaði vaxtabætur til fólks vegna þess að fasteignir hefðu hækkað verulega í verði og því mundi hrein eignastaða, út frá verði fasteigna samkvæmt fasteignamati og hins vegar vegna skuldsetningar fólks, verða til þess að áætlanir röskuðust hjá mörgum sem á sínum tíma fóru í greiðslumat hjá viðskiptabanka sínum, tóku lán, keyptu íbúð. Þeir skulda jafnmikið og þegar þeir sömdu greiðsluáætlun sína sem byggðist því að forsendur í þjóðfélaginu færu ekki langt frá þeim viðmiðum sem greiðsluáætlunin byggði á, þ.e. þar er gert ráð fyrir því hvað fólk hefur í tekjur.

Það er jafnvel reiknað með því að kjarasamningar leiði til kauphækkana á næstu árum. Menn geta gefið sér einhverjar meðaltalskauphækkanir til lengri tíma. Yfirleitt eru lán til húsakaupa til langs tíma og hægt að gera ráð fyrir kauphækkunum að jafnaði á bilinu 2–3%. Það mætti teljast gott til lengri tíma litið, umfram annan kostnað. En oft er ekki hægt að gera ráð fyrir því. En þetta eru viðmið sem menn nota þegar þeir reyna að átta sig á því hvað líklegt sé að ungt fólk hafi í tekjur á næstu árum til að fjárfesta í íbúð. Hve hátt lán það ráði við. Yfirleitt fjárfestir fólk í íbúð til að búa þar til nokkurra ára og er ekki endilega að kaupa sér íbúð með það að markmiði að íbúðin hækki í verði vegna fasteignamats.

Menn taka því í fyrsta lagi mið af kaupgetu sinni og lánastofnanir einnig. Það tekur mið af fasteigninni sem er verið að kaupa og þar eru væntanlega reiknuð inn í gjöld sem fylgja fasteigninni, fasteignagjöld og ýmis önnur gjöld. Einhverju gera menn ráð fyrir í viðhald o.s.frv. Viðkomandi einstaklingar og lánastofnanir hafa síðan yfirleitt gert ráð fyrir að vaxtabætur héldu sér nokkurn veginn og ríkisstjórnir á hverjum tíma og Alþingi mundi ekki breyta vaxtabótunum þannig að þessar forsendur fólks skekktust mikið.

Nú stöndum við frammi fyrir því á hv. Alþingi að gera lagfæringar á þessu. ASÍ reisti þá kröfu við ríkið á síðastliðnu vori, og er rétt að ítreka það að það var ASÍ en ekki Samtök atvinnulífsins, að þetta mál skyldi skoðað til leiðréttingar. Það var þó ekki gert á síðasta vori þótt á það hafi verið bent að það væri nauðsynlegt til að fólk héldi vaxtabótum nokkurn veginn í samræmi við áætlanir, greiðslumat sitt og tekjur.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti. Ég held að menn verði líka að átta sig á því að hækkun á verði fasteigna er ekki eitthvað sem fer í vasann hjá mönnum. Það er ekki eitthvað sem fólk tekur bara úr vasanum til að lifa af. Það ætlar væntanlega að búa í fasteigninni, a.m.k. í einhver ár. Það mun ekki að innleysa þann hagnað sem ef til vill gæti orðið af því að selja íbúðina. Sjálfsagt mundu menn kaupa sér aðra íbúð og ekki víst að eignastaða fólks lagist nokkuð við það.

Tvennt hefur áhrif á greiðslugetu fólks miðað við það greiðslumat sem það fór í. Fasteignaskattarnir hækka. Fasteignaverð hefur hækkað um 29% að meðaltali og sennilega upp í 35% á Reykjavíkursvæðinu. Þar af leiðandi hækka fasteignaskattar. Það hefur áhrif á hvaða tekjur eru eftir til að greiða af lánum o.s.frv. Verðbólgan hefur valdið því að kostnaður við lán hefur hækkað þótt hann dreifist á greiðslutíma. Þegar það bætist við, hæstv. forseti, að vaxtabætur hverfa þá sjá allir sem vilja sjá að þetta hefur veruleg áhrif á hvað viðkomandi fjölskylda hefur til að mæta þeim skuldbindingum sem hún tók á sig og tók á sig í góðri trú.

Ég hygg að allir hv. þingmenn átti sig á því sem ég hef hér rakið. Þetta hefur áhrif. Ég endurtek að það er ekki svo að fólk sé almennt að kaupa og selja fasteign á hverju ári og leysa út hagnað. Frekar er líklegt að fólk, a.m.k. ungt fólk, þurfi að stækka við sig frá fyrstu íbúðarkaupum. Það er staðan sem við sitjum uppi með.

Forusta ASÍ telur að það sem nú er lagt til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar nægi ekki til þess að uppfylla það sem talað var um á síðasta sumri, að fólk yrði jafn vel sett eftir lagfæringarnar af hendi ríkisstjórnarinnar og það var fyrir. Það held ég að hafi verið markmiðið. Hins vegar hefur komið í ljós, það var m.a. upplýst í efnahags- og viðskiptanefnd, að samráðið sem menn töldu víst að yrði, milli ríkisins annars vegar og Alþýðusamband Íslands hins vegar, hefur ekki farið fram. Menn hafa ekki unnið að málinu saman og ASÍ hefur borið sig illa undan því að fá ekki upplýsingar um málið til að leggja mat á um hve mikið væri nauðsynlegt að vaxtabætur hækkuðu til að fólk yrði jafn vel sett. Það hafa verið búin til dæmi sem allir þekkja, þau hafa verið rakin hér, um að jafnvel þyrfti að hækka eignastuðulinn um allt að 83% til að menn komist í sömu stöðu og fyrr. En formaður efnahags- og viðskiptanefndar telur að slík hækkun mundi keyra fram úr öllu hófi og hafa í för með sér verulegar breytingar umfram það sem menn höfðu verið að leita eftir.

Samráðið sem átti að verða varð ekki. Ég ásaka ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki haft samráð og gefið ASÍ upplýsingar svo að þeir gætu sjálfir reiknað þessi dæmi. Fulltrúar ASÍ á fundi efnahags- og viðskiptanefndar kváðust ekki hafa fengið upplýsingar og gætu þar af leiðandi ekki, þótt þeir hefðu tekið fram ákveðin dæmi sem sýndu þessa breytingu upp á 83%, vegna upplýsingaskorts og án forsendna fyrir útreikningum ríkisins metið það nákvæmlega hvaða tillögur þeir hefðu í málinu eða að hægt væri að leita sátta um aðra tölur en þau 25% sem lögð voru til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem hefur reyndar hafa verið hækkuð í 30%.

Það er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að hækkun launa fylgir öðrum lögmálum en hækkun fasteignaskatta og fasteignaverðs og hefur þar af leiðandi allt önnur áhrif. Ég hygg að fólk hafi ekki fengið kauphækkanir í samræmi við hækkun fasteignaverðs á undanförnum árum. Slík breyting á milli ára sem menn hafa tekið dæmi um veldur því miklum vanda í þessu efni.

Ég er áheyrnarfulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd en átti þess ekki þess kost að sitja síðasta fundinn sem var haldinn meðan umræður fóru fram um fjárlög í gær. Ég er þar af leiðandi ekki á nefndarálitinu sem áheyrnarfulltrúi en ég lýsi mig samþykkan því eins og stjórnarandstaðan hefur skrifað það. Ég tek undir þær ásakanir sem þar birtast að því er varðar vinnubrögð og annað.

Hér hefur verið rakið dæmi um fjölskyldu sem hefur 440 þús. kr. í mánaðarlaun eða 5,3 millj. á ári. Ætli það teljist ekki þokkaleg laun. Það hefur verið sýnt fram á að slík fjölskylda sem hefur engu breytt, búið áfram í húsnæði sínu o.s.frv., fær engar vaxtabætur. Fólk sem hefði átt að fá 236 þús. kr. í vaxtabætur ef sömu forsendur hefðu verið til staðar og áður. Ég endurtek, hæstv. forseti, að féð sem bundið er í fasteigninni við hækkun fasteignaverðs er ekki eyðslufé í vasa fólks. Það er eign sem reiknuð fyrir þau verðmæti miðað við hækkun fasteigna á hverju ári. Það er auðvitað engin trygging fyrir því að fasteignaverð hækki í framtíðinni. Það getur alveg lækkað. En eftir sem áður situr fólk uppi með það, vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið, að fá ekki vaxtabætur. Það dregur verulega úr því að fólk nái kannski endum saman miðað við gefnar forsendur, það sem fólkið gerði ráð fyrir þegar það keypti íbúðina og lánastofnanir töldu eðlilegt við útreikning á því hvað fólk þyrfti að hafa í tekjur til að geta staðið undir kaupunum. Vaxtabætur hafa verið reiknaðar inn í það dæmi.

Tvennt hefur vegið hastarlega að þeim tekjugrunni sem fólk hefur til að standa undir afborgunum. Annars vegar missir vaxtabóta og hins vegar veruleg hækkun fasteignagjalda, sem afleiðing af háu fasteignaverði. Þetta vildi ég láta koma fram og ætla ekki að lengja mál mitt frekar. Það er hins vegar nauðsynlegt að þetta mál fái að fara í gegn. Fólk varð af vaxtabótum á þessu ári og væntanlega bíður það eftir að fá þær sem hugsanlega á rétt á þeim. Því miður er allt málið komið í tímapressu. Það var kannski það sem stjórnarliðar ætluðu sér, að setja málið í tímapressu svo að jafnvel stjórnarandstaðan á þingi, þótt hún væri óánægð með framsetningu málsins og afgreiðslu þess, mundi ekki stoppa málið. Við viljum auðvitað ekki hafa af fólki að það geti fengið vaxtabætur á þessu ári. En þingtíminn styttist óðum og eigi að ná þessum greiðslum að stærstum hluta inn á árinu sem nú er að líða þá þarf málið hraða afgreiðslu.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef rakið þá er ég ósáttur við vinnubrögðin og ósáttur við niðurstöðu frumvarpsins. Ég tel að það hafi verið afar undarleg vinnubrögð af hálfu ríkisins að láta ekki af hendi upplýsingar um á hvaða forsendum ríkisvaldið byggir útreikninga sína þannig að m.a. forusta ASÍ og stjórnarandstaðan hefði getað skoðað málið fyrr og menn ef til vill fundið prósentuviðmið sem sátt hefði náðst um þótt ekki hefði náðst að tryggja þar öll möguleg dæmi, miðað við það sem áður var.