133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að þetta frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga, sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir, þurfi ítarlegrar skoðunar við. Í andsvörum hafa þegar komið fram ýmis atriði sem mér finnst að þurfi að skoða.

Markmiðið með slíkum sjóði þarf að vera alveg skýrt og á að vera tekið fram í lögum. Ef það er ætlunin, eins og hér er sagt og hæstv. ráðherra sagði, að þessi sjóður eigi nánast að þjóna sama tilgangi og í hliðstæðu formi og verið hefur, þetta sé aðeins formbreyting, þ.e. að skilgreina eignarhluti eftir einhverri ákveðinni formúlu sem gefin var, í staðinn fyrir að áður var hann í sameign allra óskilgreint, þá á bara að segja að þetta sé formbreyting. Ef hann á líka að njóta annarra ívilnana eins og um opinbera þjónustustofnun væri að ræða, þá á að segja það og lagaumgjörðin á þá að vera þannig að svo sé tryggt.

Þess vegna á III. kafli á bls. 4 ekkert heima þarna, en þar segir:

„Ekki mega fara fram viðskipti með hluti í félaginu fyrr en 1. janúar 2009. Sveitarfélögum er þó heimilt að færa eignarhluti sína til stofnunar eða fyrirtækis sem að fullu er í eigu sveitarfélagsins.“

Ef tilgangurinn með frumvarpinu er alfarið sá, eins og sagt er, að það eigi að skilgreina hlutina og skipta þeim á sveitarfélögin og markmiðið sé áfram að hann sé í eigu sveitarfélaganna og þjóni sem slíkur, þá á hann að vera það, það er svo einfalt. Enda segir í IV. kafla að ríkisábyrgð sé má segja á öllum skuldbindingum sjóðsins þar sem félagsmálaráðherra getur greitt eða tekið af framlagi viðkomandi sveitarfélags og jöfnunarsjóðsframlagi til að standa skil á skuldbindingum ef hann gerir það ekki beint. Því má segja að það sé, enda er ég ekki að setja í sjálfu sér út á það.

En það að ætla að opna á að einstök fyrirtæki eða sveitarfélög geti eignast sjóðinn að stórum hluta, þó að atkvæðisréttur eins aðila sé bundinn við 15%, þá er það ekki markmið laganna, það er bara svo einfalt. Við höfum engan áhuga á að fara að búa til eitthvert einkavæðingarferli og fara bakdyramegin að einkavæðingu á sjóðnum, eins og umrædd tillögugrein býður upp á. Vilji menn breyta formi sjóðsins þá gerum við það með lögum en ekki að vera að hafa neina sjálfvirkni í lögunum sem gefur færi á að einstakur aðili geti eignast nánast allan sjóðinn og átt svo ríkisábyrgð á skuldbindingum hans eða skuldbindingum einstaklinga eða einstakra sveitarfélaga gagnvart honum.

Ég geri ekki beina athugasemd við þetta þó að menn séu að fara hérna út í einhverja kollhnísa og reiknikúnstir með því að reyna að skilgreina eigendahlutfall sjóðsins á einstök sveitarfélög. Það má vel vera að það sé skynsamlegt þó að ég sjái ekki beint markmiðið í því — nema markmiðið sé að opna á þá leið sem ég varaði við áðan, að einstök fyrirtæki á vegum sveitarfélaga eða sveitarfélag geti komist yfir allan sjóðinn, því að frá og með 1. janúar 2009 mega viðskipti fara fram um hluti í sjóðnum innan sveitarfélaganna og innan fyrirtækja í eigu þeirra.

Það er heldur ekki skýrt hvort sveitarfélög geti nú þegar — eða ég sé það ekki svona í fljótu bragði — afhent hluta af sínum hlut til fyrirtækis í eigu viðkomandi sveitarfélags, en það virðist vera svo. Eftir árið 2009 er það að minnsta kosti fullkomlega heimilt. Mér finnst orðalagið ekki alveg skýrt í lögunum hvort það er heimilt innan þess tíma.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Ég tel að það eigi að vera alveg skýrt hvert markmiðið er með sjóðnum. Þetta er félagslegt markmið á tilveru sjóðsins og verkefnum hans gagnvart sveitarfélögunum og það á þá að vera svo. III. kaflinn er að mínu viti fullkomlega — ekki bara óþarfur heldur opnar hann fyrir einkavæðingu eða fyrir uppsöfnun á eignarhlutum sjóðsins á örfárra hendur. Ef menn vilja hafa það þannig eiga menn að segja það hreint út. En það er ekkert því til fyrirstöðu að lögum sé breytt ef mönnum sýnist ástæða til annars árið 2009 eða 2015 eða hvenær sem það er, ef það er vilji Alþingis á hverjum tíma. En einhver sjálfvirkni í uppsöfnun eignarhluta á ekki að vera í lögunum. Svo einfalt er það.