133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:53]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna um málið sem ég tel mjög mikilvægt og miklir hagsmunir í því fyrir sveitarfélögin.

Aðeins út af því sem síðasti hv. ræðumaður sagði varðandi það sem kemur fram í frumvarpinu um eignarhaldið og hvernig því verði háttað, verði þetta að lögum, þá minni ég á, hv. þm. Jón Bjarnason, að þegar lögum um Lánasjóð sveitarfélaga var síðast breytt árið 2004 var það einfaldlega vilji Alþingis að þetta eignarhald yrði skýrt, eins og kom fram í ræðu minni. Það er í raun verið að fara eftir vilja þingsins að því leyti til. Síðan er það ósk frá eigendum sjóðsins að hann verði rekinn í því rekstrarformi sem heitir opinbert hlutafélag og ég er sammála því og þess vegna er þetta frumvarp hér komið.

Að öðru leyti heyri ég það á umræðunni að mikill áhugi er eðlilega fyrir þessu máli hjá hv. þingmönnum og ég hvet til þess að í félagsmálanefnd verði farið rækilega ofan í þetta og menn fái allar þær upplýsingar sem menn þurfa á að halda, það er eðlilegt, ég hvet því til þess. Að öðru leyti þakka ég þessa umræðu.