133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:55]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég ætla rétt aðeins að geta þess að vegna þess að lánasjóðurinn nýtur alls konar forréttinda, borgar ekki skatta og skyldur og nýtur auk þess núna samkvæmt frumvarpinu ríkisábyrgðar á lán sem tekin eru fyrir ákveðinn tíma, þá er ég á móti honum af því að hann skekkir samkeppni.

Hins vegar er ég mjög hlynntur frumvarpinu því það skýrir eignarhaldið. Ég hef verið í ákveðinni krossferð fyrir því að finna eigendur að öllu fé og þetta er liður í þeirri krossferð að finna eigendur og það verður allt annar andi í stjórninni sem kosin er af sveitarfélögunum þegar hún veit að hún er að fjalla um eignarhluta sveitarfélaganna í lánasjóðnum en ekki einhverja óljósa sameign. Þetta skerpir mikið á arðsemiskröfu.

Það er þarna örlítið sem ég er mjög hlynntur, að taka 3 milljarða af eigin fé og setja það út til sveitarfélaganna. Ég held að það sé gott mál, það er allt of mikið eigið fé í þessum sjóði. Það er nú ekki mikið fleira sem ég vildi segja, frú forseti, nema ég vildi þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni enn einu sinni. Hann er alltaf með svo góðar og frumlegar hugmyndir um hvernig megi einkavæða fyrirtæki ríkisins og það er mér virkilega mikil hvatning þegar hv. þingmaður heldur ræður sínar og segir að hægt sé að einkavæða þetta og hitt.