133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

breyting á lögum á sviði Neytendastofu.

378. mál
[15:30]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að tala um frumvarp um breytingu á lögum á sviði Neytendastofu. Það er sagt að markmiðið með frumvarpinu sé tvíþætt. Annars vegar séu lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laga um Neytendastofu sem hún hefur eftirlit með framkvæmd á. Þar á að miða breytingar að því að unnt sé að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Í annan stað eru lagðar til breytingar sem varða færslu á framkvæmd faggildingar frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu.

Hér er auðvitað um mjög mikilvægt mál að ræða. Neytendamálin í heild sinni ættu að mínu mati að vega þyngra í pólitískri umræðu en þau gera núna. Allir landsmenn eru jú neytendur og mér finnst að hagsmunir neytenda þurfi oft að lúffa fyrir hagsmunum annarra hópa, svo sem Bændasamtakanna, eins og við þekkjum úr umræðu um hvort samkeppnislög eigi að gilda um landbúnaðinn eða ekki.

Í því máli er grundvallarmunur á afstöðu Samfylkingarinnar annars vegar og ríkisstjórnarflokkanna hins vegar sem við tókumst á um fyrr í haust. Þar er Samfylkingin sammála talsmanni neytenda um að, að sjálfsögðu sé það í hag neytenda og í raun í hag bænda einnig, að innleiða samkeppni á landbúnaðarmarkaðnum eins og öðrum á mörkuðum. En þótt þetta sé ekki efni þess frumvarps sem nú er til umræðu undirstrikar það samt að við þurfum að ræða oftar um neytendamál.

Hér er verið að bæta inn, eins og mér skilst, heimild til að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála og í sjálfu sér er það jákvætt. Við höfum þá meginreglu í stjórnsýslu okkar að stjórnvaldsákvörðunum er hægt að skjóta til æðra stjórnvalds nema í algerum undantekningartilvikum og síðan er dómstólaleiðin að sjálfsögðu alltaf fær. En á meðan það er áfrýjunarleið þá ber mönnum að nýta sér hana.

Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort áfrýjunarheimild sé ekki heimil samkvæmt þeim lögum sem nú gilda. Og er það þá rétt skilið að þeim ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli þeirra laga sem hér eru talin upp hafi ekki verið hægt að áfrýja til áfrýjunarnefndar samkeppnismála? Eða hafa menn stuðst við einhverja aðra almenna heimild annars staðar í lagasafninu? Er hér verið að bæta áfrýjunarleiðina eða er einfaldlega verið að setja hana í þá lagabálka sem hér eru taldir upp?

Sé þessi áfrýjunarheimild ekki til staðar núna og verið sé að bæta úr því, sem er auðvitað jákvætt, þá má væntanlega gera ráð fyrir að málum muni fjölga hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála. En hins vegar er ekki gert ráð fyrir neinum auknum kostnaði fyrir ríkissjóð verði þetta frumvarp samþykkt. Mig langar því að spyrja hvort ekki megi gera ráð fyrir því að kostnaður við áfrýjunarnefnd samkeppnismála muni aukast ef málum muni fjölga í ljósi þess að hægt verður að skjóta fleiri ákvörðunum Neytendastofu til viðkomandi nefndar.

Við sjáum að hér er sett inn áfrýjunarheimild í lagabálka sem geta snert ýmiss konar viðskipti og mjög fjölbreytileg viðskipti. Við erum að tala um breytingu á lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga og breytingu á lögum um rafrænar undirskriftir. Og breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Þetta eru allt lagabálkar sem í eðli sínu geta snert ýmiss konar viðskipti. Væntanlega þegar tíminn líður munu ákvarðanir Neytendastofu vera að einhverju leyti á sviði þessara laga. Því er einboðið að mínu viti að málum muni fjölga, þ.e. að því gefnu að hér sé verið að bæta inn alveg nýrri áfrýjunarheimild.

Mig langar því að spyrja varðandi kostnaðinn hvort það sé ekki skammsýni að gera ráð fyrir að enginn kostnaður muni hljótast af þessu frumvarpi. Mig langar einnig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort það standi til að efla með einhverjum hætti áfrýjunarnefndina til lengri tíma og um leið sömuleiðis að efla Neytendastofu og embætti talsmanns neytenda.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra, fyrst við erum að ræða þetta mál, hvernig reynslan af Neytendastofu og talsmanni neytenda sem tók til starfa árið 2005, með lögum frá 2005, hafi verið. Hvort reynslan hafi ekki verið hreint með ágætum og hvort við þurfum að hafa þá langtímasýn að jafnvel efla og fjölga mannafla hjá Neytendastofu og hjá talsmanni neytenda. Og hvort hann deili þeirri skoðun með mér að við eigum heldur að ýta undir starfsemi þessara eftirlitsaðila frekar en hitt.