133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

breyting á lögum á sviði Neytendastofu.

378. mál
[15:34]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ágætar undirtektir og vandaðar spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram. Eins og segir í fylgiskjali með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð af innleiðingu þessa frumvarps og gera má ráð fyrir því að það verði sparnaður fyrir dómstóla að einhverju leyti við það að menn nýti meira þá leið að skjóta málum til áfrýjunarnefndar.

Eins og þetta er núna eru heimildir fyrir hendi til að skjóta stjórnvaldsákvörðunum Neytendastofu sem miðast við eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gegnsæi markaðarins og við nokkur önnur lög einnig til áfrýjunarnefndar.

Frumvarpið gerir sem sagt ráð fyrir því að auka heimildir neytenda að verulegum mun. Það kemur fram hvaða lög þar er um að ræða, ég þarf ekki að telja þau upp aftur því ég gerði það áðan.

Hér er sem sagt um það að ræða að styrkja mjög heimildir og möguleika neytenda til þess að skjóta málum til úrskurðarnefndarinnar og fá þar tiltölulega skjótan málefnalegan úrskurð á mál sín eða vafaefni. Ég held ótvírætt að það sé réttarbót að því fyrir neytendur almennt.

Eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá hefur starfsemi Neytendastofu og talsmanns neytenda gengið mjög vel. Þar hafa menn auðvitað verið að vinna í ýmsum fyrstu verkum og skipulagsverkefnum eftir þær breytingar sem orðið hafa á lögum og reglum um þessi málefni og þessar stofnanir. En ég hef ekki orðið var við annað en að það hafi gengið ágætlega og hafi skilað allgóðum árangri að svo miklu leyti sem forsendur eru til að æskja árangurs þegar í stað, eftir svo stuttan tíma. En ég þakka undirtektir.