133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

390. mál
[15:46]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu minni gerum við ráð fyrir að umsvif þeirrar starfsemi sem í dag fellur undir flugöryggissvið Flugmálastjórnar verði í öllum aðalatriðum óbreytt. Engu að síður verður einhver tiltekinn viðbótarkostnaður af því að þessi starfsemi verði sérstök stofnun. Við höfum lagt mikla áherslu á það í allri þessari vinnu að gætt sé ýtrustu hagkvæmni í endurskipulagningunni og við leggjum áherslu á að gætt sé hófs í þeim gjöldum sem lögð verða á samkvæmt þessum ákvæðum frumvarpsins, en stofninn hefur í sumum tilvikum ekki verið hækkaður, eins og fram kom, síðan 1992 þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var í ríkisstjórn og við áttum gott samstarf eins og raunar enn þann dag í dag. Þess vegna teljum við, ekki síst vegna þess að umsvifin í þessu starfi hafa aukist vegna fjölgunar flugvéla á okkar svæði og fjölgunar flugvéla hjá flugrekstraraðilum, að tryggja þurfi eðlilega hækkun. Í sumum tilvikum er hún nokkur en hún tengist að sjálfsögðu þeirri starfsemi sem þarna er um að ræða. Það er því ekki fyrir fram gefið, vegna þess að verkefnin eru sveiflukennd frá einum tíma til annars, að verið sé að auka tekjur stofnunarinnar vegna þess að þær eru að verulegu leyti tengdar starfsemi sem vex og minnkar frá einum tíma til annars eftir því hversu margar flugvélar eru á lofti (Forseti hringir.) á vegum íslenskra flugrekstraraðila.