133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

390. mál
[15:48]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er væntanlega eitt af því sem verður kannað gaumgæfilega í meðferð hv. samgöngunefndar. Mér sýnist af máli hæstv. ráðherra að hann sé að boða hér umtalsverða hækkun sem hann er þó að reyna að draga fjöður yfir með því að segja að það sé hvort eð er kominn tími á að hækka ýmis gjöld sem fyrir voru. Ekki ætla ég að deila um það.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að við áttum prýðilegt samstarf árið 1992 og síðar. En ég minnist þess ekki að við höfum nokkru sinni átt mikið eða gott samstarf um að hækka álögur á flugrekstur á Íslandi og ég dreg það mjög í efa, þrátt fyrir alla þá hlýju sem ég finn í brjósti mér bærast til hæstv. ráðherra, að það samstarf muni takast á síðustu dögum fyrir jól.