133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[16:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þessu frumvarpi byrja vaxtabætur hjá hjónum að skerðast í rúmum 8 millj. kr., þ.e. þegar hrein eign er um 8 millj. kr., og dettur algerlega út þegar eignin er komin í 12,8 millj. kr. Jú, þetta er talsverð eign en ef við horfum til veruleikans og til fasteignaverðs í landinu, hvað venjuleg fjögurra herbergja íbúð fyrir 4–5 manna fjölskyldu kostar, þá eru það orðnar verulegar upphæðir. Það sem ég furða mig á er að heyra umfjöllun sumra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um þetta mál. Það er ekki hægt að alhæfa í því efni. En mér virðist margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eða sumir þeirra sem hafa haft sig í frammi í þessari umræðu, í furðulega litlum tengslum við veruleikann í landinu, við kjaraveruleika venjulegs launafólks á Íslandi.

Það er misræmi í því sem flokkurinn segir. Annars vegar vill hann fylgja sjálfseignarstefnu á húsnæðismarkaði, að fólki sé gert gerlegt að eignast húsnæði sitt, og hins vegar stendur hann fyrir lögum sem gera venjulegu launafólki, almennu launafólki, ógerlegt að eignast húsnæði.

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til skýringar á afstöðu okkar, einnig vegna vinnubragða í tengslum við þetta mál. Alþýðusambandi Íslands var heitið samstarfi um útfærslu og endanlegar niðurstöður á útreikningi vaxtabóta, hvar skerðingarmörkin skyldu vera. Það hefur ekki gengið eftir. Hér er um að ræða alvarlegar vanefndir. Menn vísa í formlega fundi sem haldnir hafa verið en á daginn kemur að fundirnir hafa fyrst og fremst snúist um hvernig samskiptum skyldi hagað. Þegar kemur að hinni eiginlegu aðkomu sem Alþýðusambandi Íslands var heitið við þetta mál þá er hún nánast engin, enda fullyrðir Alþýðusambandið og forsvarsmenn þess að um sé að ræða vanefndir á kjarasamningum. Þetta er alvarlegt mál, einnig af þeim sökum. Af þessum ástæðum munum við sitja hjá við atkvæðagreiðsluna en leggjum áherslu á að stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi lýstu því yfir að þeir mundu ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál yrði tekið til afgreiðslu og gert að lögum í dag. Við vildum stuðla að því að þeir sem koma til með að njóta hærri vaxtabóta fái þær sem allra fyrst. En við hefðum viljað að stærri skref hefðu verið stigin í þessu efni.