133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það fer ekki á milli mála að sú ríkisstjórn sem nú situr er mjög veik stjórn. Forsætisráðherrar koma og fara, en þeir eru nú einu sinni yfirmenn efnahagsmála og árangurinn er eftir því, svo sem verðbólga og mjög háir vextir. En það eru fleiri ráðherrar sem koma og fara, m.a. hæstv. umhverfisráðherrar. Þeir hafa verið þrír á þessu kjörtímabili. og það sem meira er, þeir hafa verið þrír á meðan sú stofnun, Umhverfisstofnun, sem hér er til umræðu hefur starfað. Ég er sannfærður um að það hefur valdið því að hún hefur ekki fengið þá pólitísku leiðsögn sem hún átti skilið þegar hún fetaði sín fyrstu spor.

Það þarf ekki mikinn sérfræðing í umhverfismálum til að sjá að víða er pottur brotinn í málaflokknum. Það eru ekki bara stór og flókin mál sem vafist hafa fyrir umhverfisráðherrum heldur einnig sáraeinföld mál, svo sem utanvegaakstur. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir benti á þetta í fyrirspurn til hæstv. ráðherra í fyrradag og það var greinilegt af svörum hæstv. ráðherra að það skortir talsvert á að hægt sé að fylgja því eftir að tryggt sé að ekki verði landspjöll vegna utanvegaaksturs.

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Umhverfisstofnun, sem er ein af höfuðstofnunum umhverfisráðuneytisins, sýnir svart á hvítu að stóru málin hafa einnig liðið fyrir hringlandahátt ráðherra sem hafa alls ekki sýnt þá pólitísku forustu sem nauðsynleg er í málaflokknum.

Eins og áður sagði hafa þrír umhverfisráðherrar setið á þeim þremur árum sem stofnunin hefur starfað. Stofnunin hefur úr að spila á níunda hundrað milljónir af fé almennings. Það skiptir því verulegu máli hvernig haldið er á störfum hennar. Fimmtu hverri krónu sem umhverfisráðuneytið hefur yfir að ráða er ráðstafað af þessari stofnun. Aðalmarkmiðið með stofnun Umhverfisstofnunar var að bæta og einfalda stjórnsýsluna. Þá á ég við að tryggja að utanumhald um útgefnar reglur yrði betra og einfaldara þannig að skýrari reglur giltu um þennan mikilvæga málaflokk.

Í skýrslu ríkisendurskoðanda kemur fram að þessu markmiði hafi ekki verið náð. Þar segir berum orðum að stofnunin gæti ekki einu sinni að því að hafa verkbókhald, hvað þá annað. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki að í umsögn Ríkisendurskoðunar felist ákveðinn áfellisdómur yfir Umhverfisstofnun og einnig pólitískri leiðsögn hinna þriggja hæstvirtu ráðherra sem farið hafa með málaflokkinn. Í mínum huga hlýtur það að vera. Það er mikill áfellisdómur að markmið stofnunarinnar hafi ekki gengið eftir.

Hvað hefur hæstv. ráðherra gert til að sjá til þess að stofnunin sinni upphaflegu markmiði sínu og hvað hefur stofnunin verið að aðhafast ef hún hefur ekki sinnt því? Hvað hefur hún þá verið að gera? Fram kemur í skýrslu ríkisendurskoðanda að breyta þurfi skipulagi stofnunarinnar. Hefur ráðherra einhverjar hugmyndir í þeim efnum eða á að fara fram enn ein skoðunin sem kostar peninga og tíma sem frestar því að tekið verði á þeim málum sem taka þarf á?

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að fjárveitingar hefðu átt að nýtast betur. Til hvaða aðgerða hefur ráðuneytið gripið til að stofnunin nýti þær fjárveitingar sem almenningur hefur veitt til stofnunarinnar? Ég spyr sérstaklega í ljósi þess að umhverfisráðuneytið er þeirrar skoðunar að stofnunin ræki ekki hlutverk sitt sem skyldi. Hvernig stendur á því að stofnunin hefur komist upp með að hafa ekki verkbókhald? Ég spyr að því enn og aftur. Við lestur skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram mikill áfellisdómur yfir stofnuninni og einnig má lesa á milli línanna mikinn áfellisdóm yfir pólitískri leiðsögn hæstvirtra ráðherra.

Eitt af því sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar er að eitthvert boðvald skorti yfir stofnunum sveitarfélaga úti í héraði. Ég vil að lokum spyrja: Hvað hefur stofnun sem ekki nær að stjórna sjálfri sér að gera með að stjórna stofnunum úti í héraði, frú forseti?