133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:29]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Markmiðið með stofnun Umhverfisstofnunar, þar sem sameinaðar voru í einni stofnun starfsemi Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, veiðistjóraembættisins og hreindýraráðs auk þess sem dýraverndunarmál voru sett þar undir, var að einfalda og styrkja stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og þar með auka réttaröryggi, að efla faglega þætti sem falla undir Umhverfisstofnun og stuðla að hagkvæmari rekstri. Enn fremur var talið að með sameiningunni yrði auðveldara að ná fram stefnumiðum sem stjórnvöld hafa sett sér við framkvæmd umhverfismála.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnun Umhverfisstofnunar hafi orðið til þess að einfalda álitsgjöf og umsagnarhlutverk í þeim málaflokkum sem falla undir stofnunina en að hún hafi þó ekki leitt til þess að stjórnsýsla í þessum málaflokkum hafi orðið einfaldari og styrkari eins og stefnt var að með sameiningunni. Það kemur fram í skýrslunni að fagleg þekking Umhverfisstofnunar virðist almennt góð og að færa megi rök fyrir því að sameiningin hafi stuðlað að bættri nýtingu þekkingar. Stofnunin veiti almennt góða þjónustu þegar leitað er eftir óformlegri aðstoð eða leiðbeiningu. Það er því ljóst að ýmislegt hefur gengið eftir af því sem ætlunin var að ná fram með stofnun Umhverfisstofnunar þó að enn hafi ekki öllum markmiðum sameiningarinnar verið náð.

Hér verður að hafa í huga að stofnunin hefur aðeins starfað í fjögur ár sem er e.t.v. of skammur tími til þess að hægt hafi verið að ná öllum þeim markmiðum sem stefnt var að þótt vissulega hefði verið æskilegt að málin hefðu gengið fljótar fyrir sig. Ég tel hvorki felast áfellisdóm yfir Umhverfisstofnun né yfir leiðsögn umhverfisráðherra í málaflokknum í skýrslu Ríkisendurskoðunar en í skýrslunni koma fram margar góðar ábendingar um það sem betur má fara, en það var einmitt tilgangurinn þegar þess var farið á leit við Ríkisendurskoðun að hún léti fara fram stjórnsýslu- og fjárhagsendurskoðun á stofnuninni.

Umhverfisstofnun er ein mikilvægasta stofnun umhverfisráðuneytisins og sinnir fjölmörgum málaflokkum á sviði umhverfis- og matvælamála, umfang starfseminnar nær yfir starfsemi sem sums staðar erlendis er undir mörgum mismunandi stofnunum. Fyrir vikið er nauðsynlegt að forgangsröðun verkefna sem og stjórnsýsla sé í föstum skorðum og eru þau atriði til frekari skoðunar í ráðuneytinu. Í þessu tilviki er vert að hafa í huga að engin íslensk stofnun er eins tengd framkvæmd EES-samningsins og Umhverfisstofnun en u.þ.b. 40% allra gerða sem koma frá Evrópusambandinu og falla undir samninginn heyra undir verksvið Umhverfisstofnunar. Það hefur vissulega skapað ákveðna erfiðleika við forgangsröðun verkefna þar sem sú vinna verður að vera í forgangi en henni er eins og kunnugt er að öllu leyti stjórnað af ákvörðunum Evrópusambandsins. Ráðuneytið hefur reynt að stuðla að því að hægt sé að mæta þessari vinnu, m.a. með auknum fjárveitingum, en sífellt bætast við atriði sem taka verður á og mörg hver kosta töluverða fjármuni svo sem ýmiss konar mælingar og úttektir sem jafnvel kalla á dýrar fjárfestingar í búnaði.

Skipurit Umhverfisstofnunar, sem starfað hefur verið eftir frá því að stofnunin tók til starfa fyrir tæpum fjórum árum, var unnið á vegum forstjóra stofnunarinnar í samráði við starfsmenn með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga og sett fram með það fyrir augum að ná fram sem bestri samlegð og sameiningu starfseminnar. Skipuritið tók mið af nýrri stofnun sem var í startholunum og eins og önnur skipurit er það háð breytingum í ljósi fenginnar reynslu.

Ég tel einsýnt að breyta þurfi skipuriti stofnunarinnar í ljósi niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, m.a. á þann hátt að gera það einfaldara og ekki síst að það lýsi starfsemi stofnunarinnar betur en núgildandi skipurit gerir. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar, þar sem Umhverfisstofnun er stjórnsýslustofnun, að leggja verði meiri áherslu á stjórnsýslu stofnunarinnar en gert hefur verið en sérfræðihlutverk stofnunarinnar virðist skyggja um of á stjórnsýsluhlutverk hennar. Þannig virðast þær starfseiningar sem voru sameinaðar í stofnuninni starfa tiltölulega óbreyttar en ein af ástæðunum fyrir því að Ríkisendurskoðun var beðin um úttekt á stofnuninni var fyrirkomulag stjórnsýslu hennar. Nýting fjármuna er að sjálfsögðu mjög háð því hvernig tekið er á þeim málum. Stofnunin hefur ekki haft verkbókhald eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar en það hefur nú verið tekið upp í ljósi ábendinga Ríkisendurskoðunar. Aðrar stofnanir ráðuneytisins færa allar verkbókhald, enda hefur ráðuneytið lagt áherslu á nauðsyn þess, m.a. til að geta lagt mat á vinnu við einstök verkefni sem og á fjárþörfina.

Frú forseti. Vegna þess að spurningar hv. fyrirspyrjanda eru nokkuð viðamiklar vil ég fá að ljúka við að svara þeim í seinni ræðu minni.