133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Úttekt Ríkisendurskoðunar er áfellisdómur yfir framkvæmdarvaldinu. Hún leiðir í ljós að sameining þriggja stofnana og tveggja ráða á umhverfissviði var ótímabær og markmiðin illa skilgreind og að með sameiningunni hafi hvorki orðið faglegur né fjárhagslegur ávinningur. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, að mínu mati, eins og til sameiningarinnar var stofnað í hlandspreng vorið 2002. Þarna var slegið saman þremur fjárvana stofnunum og tveimur fjársveltum ráðum í eina stóra fjárvana stofnun sem aldrei var meiningin að yrði sterk.

Á fundi með menntamálanefnd fyrir skemmstu staðfesti forstjóri stofnunarinnar það sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að það skorti á sameiginlegan skilning ráðuneytisins og stofnunarinnar hvað fjárveitingar varðar. Á stofnuninni hvílir, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem verið var að samþykkja hér við 3. umr. í morgun, fullkomlega óraunhæf sértekjukrafa upp á 128 milljónir, sem er hækkun úr 57,5 milljónum á síðasta ári. Ekki sinnti meiri hluti fjárlaganefndar í nokkru óskum stofnunarinnar um lækkun sértekjukröfu svo það er ekki bara umhverfisráðuneytið sem er í afneitun gagnvart þeim vanda sem Umhverfisstofnun á við að glíma heldur allur stjórnarmeirihlutinn á Alþingi.

Það er mitt mat, virðulegi forseti, að Umhverfisstofnun hafi aldrei verið ætlað að vera sú öfluga stofnun sem hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, lét í veðri vaka í umræðu um lagasetninguna. Til hennar var stofnað þegar Framsóknarflokkurinn var kominn með myllustein Kárahnjúkavirkjunar um hálsinn og einn liðurinn í því að lama Náttúruvernd ríkisins, sem hafði reynt að standa í lappirnar í því máli og vera málsvari náttúruverndar, var að leggja hana niður, týna henni í hollustuvernd og matvælarannsóknum. Forstjóri Náttúruverndar var lækkaður í tign og gerður óvirkur, kippt út úr kastljósi fjölmiðlanna, tekinn úr sambandi við nefndir Alþingis, og í staðinn settur þar forstjóri Hollustuverndar ríkisins sem á þessum átakatímum átti fullt í fangi með að fóta sig sem talsmaður náttúruverndar í landinu. Það er dapurlegt í ljósi þessarar skýrslu, frú forseti, að Framsóknarflokkurinn skuli (Forseti hringir.) enn ráða lögum og lofum í umhverfisráðuneytinu.