133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:39]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um úttekt Ríkisendurskoðunar á málefnum Umhverfisstofnunar frá september 2006. Það ber að vekja athygli á að forstjóri Umhverfisstofnunar óskaði sjálfur eftir því við Ríkisendurskoðun að hún gerði stjórnsýsluúttekt á starfseminni, einkum til að meta hvort fjárframlög til hennar væru í samræmi við starfsumfang og verkefni. Ljóst má vera að verkefni stofnunarinnar eru umfangsmikil og hafa stjórnendur gagnrýnt að auknum verkefnum hefur ekki fylgt aukið fjármagn. Um það virðist vera ágreiningur milli umhverfisráðuneytis og stofnunarinnar.

Umhverfisstofnun er tæplega fjögurra ára gömul stofnun og varð til við sameiningu fjögurra stofnana á sviði umhverfismála. Ég er þeirrar skoðunar að ákvörðun um sameiningu þeirra hafi verið rétt. Margt hefur tekist vel eins og kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar en að sama skapi eru ýmsar athugasemdir gerðar um starfsemina um þætti sem betur mættu fara. Jafnframt segir í skýrslunni eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þó að rök kunni að vera fyrir því að Umhverfisstofnun hafi ekki verið tryggð fjárframlög sem samrýmast að fullu nýjum verkefnum er rekstur hennar almennt í viðunandi horfi fjárhagslega séð. Þá er bent á að skipulagsbreytingar innan stofnunarinnar geti skilað meiri hagkvæmni og þar með fjármagni til að sinna nýjum verkefnum.“

Það sem máli skiptir er að athugasemdir Ríkisendurskoðunar liggja fyrir og að stjórnendur stofnunarinnar hafa þegar brugðist við mörgum ábendingum um það sem betur mætti fara. Það verður að gera þær kröfur til stjórnenda opinberra stofnana að þeir geri nauðsynlegar ráðstafanir varðandi skipulag og starfstilhögun svo stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Ég hef fulla trú á að stjórnendum muni takast það ætlunarverk sitt á sem skemmstum tíma. Það er forsenda þess að hægt verði að meta að nýju fjárframlög til starfseminnar.