133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

málefni Umhverfisstofnunar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

[16:45]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það segi nokkuð um ástand og stöðu Umhverfisstofnunar að forstjóri þeirrar stofnunar skuli sjálfur hafa óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á starfseminni, bæði rekstri og stjórnunarlegri stöðu stofnunarinnar. Það er mjög margt ámælisvert sem fram kemur í skýrslunni en fyrir okkur sem fylgdumst með stofnun Umhverfisstofnunar og undirbúningi þeirrar stofnunar koma niðurstöður ríkisendurskoðanda ekki á óvart. Undirbúningi þeirrar stofnunar var hraðað mjög og starfsmenn þeirra stofnana sem slegið var saman í eina stofnun, Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, embætti veiðistjóra og embætti hreindýraráðs auk verkefna á sviði dýraverndar, vöruðu mjög við því að búin yrði til fjárvana stofnun, því að allar þessar stofnanir voru fjárvana og fjárskortur háði þeim öllum þegar lagt var upp í þessa vegferð. Að efna til og stofna nýja stofnun úr fjárvana stofnunum boðar ekki gott. Ég dreg í efa að staðið yrði þannig að þessari stofnun í dag með Hollustuvernd ríkisins sem hefur frá þessum tíma fengið mjög aukin verkefni með EES-samþykktum og -tilskipunum.

Ég vil í lokin, hæstv. forseti, vara við þeim hugmyndum sem koma fram í lok skýrslunnar um að koma öllu heilbrigðiseftirliti yfir til ríkisins og undir þessa stofnun. Miklu frekar ætti að huga að því hvort heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hefðu ekki tækifæri og nógan styrk til að taka að sér (Forseti hringir.) fleiri verkefni en þau gera í dag.