133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

Póst- og fjarskiptastofnun.

397. mál
[16:54]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Frumvarpið miðar að því að breyta tekjugrunni Póst- og fjarskiptastofnunar.

Í núgildandi lögum eru tekjustofnar stofnunarinnar þrír. Í fyrsta lagi er lagt rekstrargjald á fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur, í öðru lagi er lagt á númeragjald og í þriðja lagi innheimtir stofnunin gjöld samkvæmt gjaldskrá.

Í þessu frumvarpi er lagt til að gjöld sem ákveðin hafa verið í gjaldskránni og staðið hafa undir kostnaði við umsýslu stofnunarinnar vegna starfrækslu gjaldenda á þráðlausum fjarskiptabúnaði, verði felld úr gjaldskránni. Í staðinn verði sett inn í lögin lögbundið gjald fyrir notkun tíðna sem tiltekið verði sérstaklega í lögunum.

Skipulagning tíðninotkunar og almennt eftirlit með sendibúnaði af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar er nauðsynlegt til þess að hægt sé að starfrækja þráðlaus fjarskipti. Þessi þáttur í starfsemi stofnunarinnar miðar að því að tryggja öryggi þráðlausra fjarskipta og koma í veg fyrir truflanir. Þetta er þjónusta við þá sem nota ljósvakann til fjarskipta og því eðlilegt að þeir beri kostnað af þeirri umsýslu sem starfsemin kallar á. Það hefur hins vegar reynst erfitt að sérgreina kostnað við þjónustu við einstaka gjaldendur. Því er nauðsynlegt og í takt við þau viðhorf sem ríkja í dag varðandi gjaldtöku hins opinbera að gjöld þessi verði ákveðin með lögum.

Tillaga að gjöldum fyrir tíðninotkun byggist á vandaðri greiningu sem gerð var á kostnaði við umsýslu Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þráðlausra fjarskipta.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á núgildandi ákvæði laganna er heimila samgönguráðherra að setja stofnuninni gjaldskrá en í samræmi við þá tillögu að kveða á um lögbundið tíðnigjald er nauðsynlegt að breyta gjaldskrárákvæði laganna til samræmis við það. Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæðinu í þá átt að skýra nánar hvaða þjónusta það er sem taka má gjald fyrir og hvaða þætti beri að leggja til grundvallar þegar reiknaður er kostnaður við einstaka þjónustuþætti.

Þær breytingar sem ég hef farið hér yfir munu leiða til um 13 millj. kr. tekjulækkunar fyrir stofnunina. Þá liggur einnig fyrir að stofnunin mun verða fyrir tekjutapi vegna breytinga á þeirri framkvæmd sem verið hefur á álagningu rekstrargjalds en úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum nýlega að rekstrargjald skyldi ekki lengur lagt á innri veltu vegna sölu á fjarskiptaþjónustu milli deilda innan sama fyrirtækis auk virðisaukandi þjónustu. Þessi breyting á framkvæmd mun hafa í för með sér tekjuskerðingu fyrir Póst- og fjarskiptastofnun sem nemur um 14 millj. kr. á ári. Þessi niðurstaða hefur því þær afleiðingar að gjaldstofn rekstrargjalds verður lægri en stofnunin hefur gert ráð fyrir í áætlunum sínum undanfarin ár. Til að mæta þessari tekjuskerðingu sem stofnunin verður fyrir með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til og með fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála er lagt til að rekstrargjald sem fjarskiptafyrirtækjum ber að greiða hækki úr 0,2% í 0,3%. Með þessum breytingum á gjaldstofnum er þannig ekki gert ráð fyrir því að heildartekjur stofnunarinnar hækki heldur að þær verði þær sömu og áður.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á dagsektarákvæði laganna en þar er verið að leggja til breytingar, til samræmis við þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur er verið að samræma ákvæði laga um Póst- og fjarskiptastofnun og ákvæði fjarskiptalaga er kveða á um dagsektir.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.