133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

umferðarlög.

381. mál
[17:16]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbrúnu Baldursdóttur fyrir þetta frumvarp og þá ítarlegu greinargerð sem því fylgir. Ég tel þetta vera athyglisverða og umhugsunarverða hugmynd og hún er vel rökstudd í ítarlegri og ágætri greinargerð.

Þetta er að sjálfsögðu afar viðkvæmt mál því að hjá flestum unglingum er stóra stundin 17 ára markið og líklega meiri hluti þeirra kominn með bílpróf, sjálft ökuskírteinið á afmælisdaginn, hvorki meira né minna, enda tengist þetta ákveðnu frelsi. Þeir eru eins og fuglar sem fá vængi til að geta ferðast um, vera ekki bundinn af tveimur jafnfljótum eða strætisvögnum. Þetta er ákveðin frelsistilfinning, ef til vill ákveðin leið að fá viðurkenningu á því að vera orðinn fullorðinn. Út frá þeim sjónarmiðum er þetta viðkvæmt mál.

Ég vil taka undir að nálgast má þetta út frá ýmsum sjónarhornum. Finna má rök bæði með og á móti því að hækka aldurinn til ökuskírteinis. Eitt sjónarhornið er, eins og kemur fram í greinargerðinni, út frá þroskasálfræði og þroska unglinga, hvenær einstaklingurinn er orðinn það þroskaður að hann geti axlað þá ábyrgð að vera ökumaður í umferð og í stöðugt vaxandi umferð. Sjálfsagt er hægt að finna dæmi þess að í einhverjum tilvikum er sá þroski aldrei til staðar hversu gamlir sem einstaklingar verða, en hér erum við að tala um heildina.

Hins vegar má nálgast þetta út frá kerfislegum sjónarhornum, jafnræði. Við vitum að 18 ára aldursmarkið er skilgreining á fullorðinsárum, þá telst einstaklingur vera orðinn fullorðinn. Einstaklingurinn fær um leið ákveðin önnur réttindi, samfélagsleg réttindi, þó að auðvitað séu ákveðnar mótsagnir, svo sem með giftingaraldur. Að því leytinu til má segja að það séu rök að samræma 18 ára markið við það að gerast fullorðinn og fá þau réttindi sem því fylgja en um leið ábyrgð sem fylgir því að teljast fullorðinn.

Grundvallarspurningin hlýtur því að vera þessi: Er það vandi að ökumenn á Íslandi skuli fá ökuleyfi 17 ára gamlir? Ég hygg að við getum verið sammála um það og tölur segja okkur að langsamlega flestir ökumenn axla þá ábyrgð, hafa þroskann og geta ekið um í umferðinni án þess að vera vandamál. En þá kemur spurningin með minni hlutann, þennan afgerandi minni hluta en þeim mun kannski dramatískari ef svo má að orði kveða, að samkvæmt tölum frá Umferðarstofu eru það óneitanlega ökumenn á aldrinum 17–18 ára sem oftast, langsamlega oftast lenda í umferðarslysum. Við getum sagt að eitt alvarlegt umferðarslys er einu alvarlegu umferðarslysi of mikið og ef orsakavaldurinn er aðallega unglingar á aldrinum 17–18 ára hljótum við að fókusera á það.

Ég vil taka undir þá hugmynd sem hefur svo sem verið hreyft áður, að einstaklingar fái ökuskírteini í þrepum, eins og þekkist í sumum löndum, þ.e. að á fyrsta ári — alveg óháð aldri reyndar — megi einstaklingar ekki aka bifreið nema upp að ákveðinni vélarstærð og komist þar af leiðandi ekki jafnhratt yfir og kraftmiklir bílar. Ef þeir sanna að þeir valdi þeirri vélarstærð er á næsta þrepi vélarstærðin og kraftur bifreiðarinnar aukinn.

Ég er líka mjög hlynntur því að herða refsirammann og það mun verða rætt síðar í frumvarpi frá hæstv. samgönguráðherra sem liggur fyrir þinginu, því að við þurfum að bregðast við þeim skelfilegu slysum sem hafa farið svo vaxandi í umferðinni.

Það er þó einn punktur sem ég vil velta upp án þess að ætla að lengja umræðuna og það er þegar við erum að spyrja okkur hvort þetta sé vandi. Svarið er að ungir ökumenn eru að hluta til vandamál. Þetta er sá hópur sem veldur flestum slysum. En eru það allir ökumenn á 18. ári? Svarið við því er nei. Vegna þess að í ljós hefur komið að það eru fyrst og fremst strákar á aldrinum 17 ára sem eru ógn fyrir marga í umferðinni. Þá koma fram þessar andstæður, ef við segjum að stelpurnar hafi ekki verið vandamál í umferðinni fram til þessa, kannski vegna þess að þær þroskast fyrr en við strákarnir, án þess að ég geti svo sem svarað því, hv. flutningsmaður þekkir það eflaust betur sem sálfræðingur. En ef stelpurnar eru að öllu jöfnu ekki vandamálið í umferðinni má spyrja hvort við séum að láta hegðan einhvers lítils hluta stráka á 18. ári kalla ákveðna refsingu yfir stelpur sem ekki eru vandamál. Getum við hugsað okkur það að við notum staðreyndirnar, við notum söguna, við notum reynsluna til að lyfta þakinu fyrir stráka þannig að það komi með þeim hætti jákvæð mismunun gagnvart stelpum? Statistikk og tölfræði frá Umferðarstofu segir í rauninni að það séu strákarnir. Þess vegna kannski er ástæða til að líta á þá án þess að refsa stelpunum. En hvort það gangi upp út frá jafnræðissjónarmiði skal ég ósagt látið en mér finnst þetta að minnsta kosti umhugsunarefni og verður fróðlegt að fá umsagnir til hv. samgöngunefndar þegar við tökum til við að vinna í málinu. En ég tel ástæðu til að þakka fyrir að þessari hugmynd skuli hreyft hér.