133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[17:39]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir þá þingsályktunartillögu sem hv. þm. Ellert B. Schram mælti fyrir um að gera breytingar á skattlagningu á lífeyrisgreiðslum og þá sérstaklega að útbúa frumvarp um að lífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum verði skattlagðar á sama hátt og fjármagnstekjur. Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að skattleggja eigi greiðslur úr lífeyrissjóði eins og fjármagnstekjur og lét útbúa fyrir mig frumvarp á þessu kjörtímabili um það. Við vinnslu þess frumvarps kom í ljós að greiðslur til lífeyrisþega úr lífeyrissjóðum eru að stórum hluta til fjármagnstekjur þó að þær séu það ekki að öllu leyti, því að sumu leyti eru þær sparnaður en að öðru leyti fjármagnstekjur. Það er því fullkomlega eðlilegt að skattur sem greiddur er af slíkum greiðslum sé sá sami og fjármagnstekjuskattur.

Við þekkjum það sem höfum kynnt okkur lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja að skattar og skerðingar í almannatryggingunum taka til baka að stórum hluta þann sparnað sem fólk hefur verið að leggja fyrir í gegnum lífið og það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi. Og eins og hv. þm. Ellert B. Schram benti á er þetta lögbundinn sparnaður sem fólk tekst á hendur með því að greiða í lífeyrissjóðina. Ég tel því mjög tímabært og nauðsynlegt að fara í þessa vinnu og einnig að skoða hvort ekki sé full ástæða til að breyta skattlagningu á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingunum.

Umræður um málefni lífeyrisþega undanfarið hafa einnig vakið almenning til umhugsunar um þessi mál, sem er fullkomlega tímabært og mjög nauðsynlegt. Ég vil líka fagna því að fjölmiðlar hafi látið þessi mál til sín taka og tekið þau alvarlega til umræðu, eins og Ríkisútvarpið hefur gert í Speglinum undanfarið. Ég er alveg sannfærð um að ef stjórnarandstaðan og fjölmiðlar taka höndum saman um að berjast fyrir þessum málum og breytingum á lífeyristryggingunum — kaflinn í almannatryggingunum um lífeyrismálin er náttúrlega orðinn úreltur og barn síns tíma — muni nást réttlátar breytingar í þeim efnum, bæði hvað varðar þá skattlagningu sem verið er að tala um hér og einnig skerðingarmálin.

Auðvitað eru það vonbrigði eins og gerðist í morgun þegar tillaga okkar stjórnarandstöðuflokkanna var felld af ríkisstjórnarmeirihlutanum, þar sem við lögðum til minni skerðingar í almannatryggingunum og ýmsar aðrar kjarabætur. En það koma tímar eftir þá tíma sem við upplifum núna og ég trúi ekki öðru en að kjósendur, þegar þeir sjá hvernig ríkisstjórnin bregst við úrbótum í málefnum aldraðra, veiti henni ekki umboð áfram til að vera við stjórnvölinn.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að rökstyðja þetta mál frekar, hv. þm. Ellert B. Schram hefur gert það ágætlega. Ég hef verið sannfærð um að fara eigi þessa leið og vonandi næst þetta mál fram í efnahags- og viðskiptanefnd, þó að ég sé ekki of bjartsýn eftir meðferð tillagna okkar í morgun, en við munum auðvitað fylgja þessu eftir, eftir kosningar, ef þetta mál nær ekki fram að ganga að þessu sinni.