133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[18:08]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta svolítið undarleg ræða, ég verð að segja það alveg eins og er, vegna þess að þingsályktunartillagan sem hér liggur fyrir — það getur varla verið að hv. þingmaður hafi misskilið hana á þann hátt, að það hafi átt að verða niðurstaðan af því sem lagt er til, að menn færu að leggja meiri skatta á þá sem lægstar hefðu tekjurnar. Tillagan er ekki hugsuð þannig. Vitanlega þurfa menn að vanda sig við þá vinnu sem tillagan gengur út á. Það sem við sem styðjum þessa tillögu viljum sjá að gerist, er að það verði sanngjarnt sem kemur út.

Hv. þingmaður veit vel að í samfélaginu eru stórir hópar fólks, það er kannski ekki rétt að segja stórir hópar, en það er til töluvert mikið af fólki sem á gríðarlega mikla fjármuni. Það borgar af þeim afar lága skatta. Eru þetta lífeyrisgreiðslur allt saman? Er þetta eitthvað sem fólk hefur borgað skatta af í gegnum tíðina? Hvernig hafa þessir peningar orðið til í viðskiptum í landinu? Gríðarlegar eignir. Af þeim eru borguð lægstu gjöld sem hægt er í ríkissjóð.

Á sama tíma er sparnaður fólks skattaður á hæstu prósentum. Við viljum sjá réttlæti í þessu, sjá að fólk geti átt lífeyrissparnað sinn og borgað af því svipað og það borgar af fjármagnstekjum.