133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[18:14]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Herra forseti. Það er nú liðið á daginn og kannski ekki viðeigandi að draga þessa umræðu mikið á langinn. Ég vildi þó þakka flestum þeim sem hér hafa tekið til máls, ef ekki öllum, fyrir innlegg þeirra í umræðuna.

Fyrst vil ég vísa til þess sem hv. þm. Ásta Ragnheiður sagði um lífeyrissjóðina. Að lífeyrissjóðirnir eru náttúrlega í eðli sínu fjármagnsávöxtun og allar þær lífeyrisgreiðslur sem eru greiddar út eru í eðli sínu fjármagnstekjur. Þannig að þessu leyti er það alveg réttlætanlegt og hægt að rökstyðja að arður sem greiddur er út til lífeyrisþega í formi mánaðarlegra greiðslna sé skattlagður sem fjármagnstekjur.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist hér á þann annmarka sem kannski má segja að sé á þessum tillöguflutningi og sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur minnst á líka, þ.e. að felldar eru niður skattlagningar á þeim fjórum prósentum sem menn borga í iðgjald frá einum tíma til annars inn í sjóðina. Að því leyti get ég fallist á að það atriði hljóti að vera til athugunar ef og þegar að því kemur að framkvæma þessa tillögu.

En ef menn standa frammi fyrir því að fara þá leið að breyta skattlagningunni á lífeyrissjóðsgreiðslurnar úr almennri tekjuskattsálagningu yfir í fjármagnstekjuskattinn og hvort hægt sé að samþykkja það eða ekki á þeim grundvelli að þá þurfi að taka upp skattlagningu aftur á iðgjaldið, þá er ég þeirrar skoðunar að meginþorri manna mundi segja að það væri hagkvæmara fyrir hvern og einn einstakling að hann borgi þá skatt af þessum fjórum prósentum þegar launin eru greidd og iðgjaldið tekið. Þá sé það fé komið til ávöxtunar inni í lífeyrissjóði og síðan skattlagt sem fjármagnstekjur þegar þar að kemur. Af þessum tveim kostum held ég að það sé yfirgnæfandi öruggt að fólk mundi velja fyrri kostinn.

Ég hafði ekki heyrt fyrr um að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefði tekið þetta mál til meðferðar á þingi sínu nýlega og ályktað í þá sömu átt og þessi þingsályktunartillaga felur í sér, en ég gleðst auðvitað yfir þeim óvænta stuðningi.

Ég þakka líka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir innlegg hans í umræðuna sem var allt á þeim nótunum að styðja bæði tillöguna og hugsunina á bak við hana.

Hér kom svo hvítur stormsveipur inn í þingsalinn um það leyti sem menn voru að ljúka umræðunni, hv. þm. Pétur Blöndal og fór mikinn. Það er ekki annað að heyra en að hann sé fyrir fram búinn að ákveða að vera á móti þessari leið. Hann er fyrir fram búinn að gefa sér að þetta sé eitthvað sem hann geti ekki samþykkt, eða hans flokkur. Hefur þess vegna fundið hér upp á því að vera með alls kyns athugasemdir og útreikninga sem er auðvitað hægt að koma með gagnreikning á móti og halda hér áfram rökræðum við hann á þeim nótum.

Ég verð auðvitað að skilja það og viðurkenna ef einhverjir pólitíkusar, alþingismenn eða stjórnarflokkar eru bara á móti þessari aðferð. En ég minni á það, hv. þm. Pétur Blöndal, að við erum ekki að tala um ríkissjóð hér. Við erum ekki að tala um lífeyrissjóðina. Við erum að tala um fólkið, einstaklingana í landinu, sem þiggur lífeyrisgreiðslurnar þegar það er orðið 67 ára og eldra.

Eins og ég gat um í framsöguræðunni þá þiggja um 90% 67 ára fólks og eldri, eða 25–30.00 manns, greiðslur úr lífeyrissjóðum sínum. Þar af eru um 50% sem þiggja greiðslur á bilinu 114 til 140 þús. kr. og 40% á bilinu 140 upp í 180 þús. kr. Þetta er sem sagt fólkið sem fær mánaðarlega úr lífeyrissjóðunum sínum, við skulum segja 130 upp í 200 þús. kr. á mánuði. Það er þetta fólk sem borgar 38% tekjuskatt af þeirri upphæð og heldur eftir, eða svo getur stærðfræðingurinn reiknað það út hve miklu það heldur eftir. Á sama tíma upplýsir Hagstofan að lágmarksframfærsla einstaklings á þessum aldri sé um 200 þús. kr. eftir skatt.

Þessi tillaga er auðvitað sprottin úr þessum jarðvegi að einstaklingarnir í þjóðfélaginu, sem eru orðnir 67 eða eldri, og þiggja lífeyrisgreiðslur upp á 160–170 þús. kr., þeir standa uppi með 100 þús. kr. Það er þessi hópur sem skiptir kannski mestu máli að því leyti að ef hann er hættur að borga tekjuskatt og fer að borga fjármagnstekjuskatt þá lækka skattarnir. Það er auðvitað alveg augljóst. En ég kann víst ekki að reikna þetta öðruvísi út.

Svo er auðvitað hægt að koma með dæmi um 100 þús. kr. einstaklinga sem í núverandi fyrirkomulagi mundu ekki borga neinn skatt vegna skattleysismarka eða vegna þess að tekjurnar eru svo lágar. En þeir mundu lenda í 10% skatti ef við tækjum þennan fjármagnstekjuskatt upp. Ef menn eru neikvæðir gagnvart þessu og fyrir fram á móti þá er auðvitað hægt að finna svona aðferðir.

Ef menn hins vegar eru jákvæðir og skilja þýðingu og gildi og ástæðuna fyrir framlagningu þessarar tillögu þá fara þeir auðvitað í það að laga hana þannig að ekkert óréttlæti komi út úr henni. Vegna þess að tilgangurinn með tillögunni er náttúrlega fyrst og fremst sá að hafa hér sanngjarnt skattkerfi. Að það sé ekki sá mismunur og ranglæti ríkjandi áfram að fólk sé með sambærilegar tekjur hvort heldur það fær úr lífeyrissjóði eða hefur tekjur af því að leigja kjallarann hjá sér út, 150 þús. kall eða hvað það er, að það borgi mismunandi skatta af þessum tekjum. Þetta er viðfangsefnið.

Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal er hjartahlýr og skilningsríkur og ég vona að hann fari ekki að snúa frekar út úr þessu og skilji hver tilgangurinn er. Hann er ekki fyrir ríkissjóð. Hann er ekki til þess að þvæla um það fram og til baka í skattkerfinu, hann er til þess að koma til móts við það fólk sem hefur varla í sig eða á.