133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[18:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að ég yrði fyrir fram á móti þessu. Það er ekki rétt. Ég er að færa rök fyrir því að þetta sé misskilningur, þetta frumvarp eins og öll umræðan. Vegna þess að fjármagn lífeyrissjóðanna hefur ekki verið skattað. Hvorki hjá fyrirtækjunum né hjá launþegunum. Nema einhver sjö ár, þar sem 4% iðgjaldið var sett inn í persónuafsláttinn.

Svo talar hann um minn flokk. Ég er ekkert að tala fyrir minn flokk. (Gripið fram í.) Þingmenn eru bara trúir sannfæringu sinni hér á hinu háa Alþingi. Ég er að tala fyrir mig. Ég ætla að biðja hv. þingmann að vera ekki að blanda flokknum mínum inn í þetta. Þegar hann talar um að ég sé pólitíkus þá er ég líka sérfræðingur þó að ég sé pólitíkus. Ég get haft vit á hlutunum þótt ég sé pólitíkus.

Hann talar um að stór hluti af lífeyrisgreiðslum séu fjármagnstekjur. Það er rétt. Það er talið að tveir þriðju af lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóðanna séu fjármagnstekjur. En það átti eftir að skatta þá. Ég færði rök fyrir því að vegna þess að þetta fjármagn er óskattað þá er maður sem hefði sparað við hliðina á og borgað skatt af því, hann væri eins settur þó að hann borgaði skatta af lífeyrisgreiðslunum.

Svo sagði hann að það væri betra ef menn borguðu skatta af fjórum prósentunum. Það var nú aldeilis barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir að fá að draga þetta frá skatti. Það á enn þá eftir að borga skatta af framlagi fyrirtækjanna sem er 6%. Sá skattur hefur reyndar lækkað, hann var einu sinni 50% en er kominn niður í 18% núna. Þannig að það mætti kannski taka mið af því.

En það er rökvilla í dæminu. Vegna þess að þetta fjármagn er óskattað. Það hefur aldrei verið tekjuskattað. Þess vegna er mjög eðlilegt að borgaður sé skattur af því þegar það er greitt út. (Gripið fram í.) Það er ekkert nauðsynlegt. Við getum fellt alla skatta niður. Það er líka til í dæminu.