133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:35]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að lesa upp orð mín og taka af mér það ómak. Um var að ræða framsöguræðu á flokksfundi þar sem verið er að vinna að málefnum til sérstaks málefnaflokksþings sem verður haldið á vegum framsóknarmanna í febrúar nk. Ég held að hv. þingmaður hafi farið alveg rétt með textann. Hins vegar las hann miklu meira úr honum en efni standa til. Það hefur farið fram lögfræðileg athugun á lögmæti þessarar ákvörðunar á liðnum tíma. Þetta var sem sagt ræða á flokksfundi framsóknarmanna og er liður í málefnavinnu okkar sem stendur yfir. Það er ekki venja að menn flytji skýrslur í ríkisstjórn um ræður sínar á flokksfundum og ég hyggst ekki taka það upp, enda þarf miðstjórn Framsóknarflokksins ekki á neinum leiðbeiningum að halda þaðan.