133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Við höfum orðið vitni að því á skömmum tíma að hæstv. iðnaðarráðherra, formaður Framsóknarflokksins, hefur gert tvær mjög athyglisverðar tilraunir til að þvo af flokknum óþægileg mál og fría Framsóknarflokkinn af allri ábyrgð á fortíð sinni. Hitt var þegar hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að þvo af flokknum stóriðjustefnuna í sumar með eftirminnilegum hætti.

Það er einnig ljóst af þessu að hin hefðbundna transformasjón, umbreyting Framsóknarflokksins í stjórnarandstöðuflokk á síðustu mánuðum kjörtímabils, er hafin. Nú er gamla Framsókn komin með skottið niður og er farin að reyna að mjaka sér yfir í stjórnarandstöðu og láta eins og hún beri ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut þótt hún sé að búin að vera 12 ár í ríkisstjórn, 12 árum of lengi.

Það er líka undarlegt ef ræðumaður á miðstjórnarfundi hjá Framsóknarflokknum, Jón Sigurðsson, er einhver annar maður en hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson og formaður annars stjórnarflokksins. Hafa orð ræðumannsins einhverja aðra stöðu, eitthvert annað vægi en þó að hæstv. iðnaðarráðherra og formaður annars stjórnarflokksins talaði? Það var helst að heyra á hæstv. iðnaðarráðherra áðan að þetta væri allt önnur Ella af því að þetta hefði verið ræða á miðstjórnarfundi hjá Framsókn, hvað væru menn að blanda því saman við ábyrgð Framsóknarflokksins hér sem ríkisstjórnarflokks.

Nei, formaður Framsóknarflokksins hefur sagt svona hálft a. Hann á eftir að segja seinni helminginn af a-inu og allt b-ið og það sem þar á eftir kemur. Ef þetta voru mistök ætlar þá formaður Framsóknarflokksins að taka upp baráttu fyrir því að þau verði leiðrétt, það verði beðist afsökunar á þeim og beita sér fyrir því að samstarfsflokkurinn breyti líka um áherslur og þar með ríkisstjórnin öll? Annars eru engar innstæður fyrir þessu hjali (Forseti hringir.) og þetta er bara hefðbundið kosningaorðagjálfur hjá gömlu Framsókn.