133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta er orðið alvarlegt ágreiningsmál innan ríkisstjórnarinnar því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra kallar það ranga ákvörðun og mistök sem hæstv. forsætisráðherra segir að hafi falist í mannúðlegum stuðningi við íröksku þjóðina og leyfi til flugferða yfir landið. Þetta verðum við að fá skýrt.

Hvaða ákvarðanir er um að ræða?

Samkvæmt forsætisráðherra er um að ræða þessar tvær ákvarðanir. Það eru þær sem hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson kallar mistök og rangar ákvarðanir, eða hvað? Hvaða skrípaleikur er þetta?

Einn þáttur af því sem nú hefur gerst hefur utanríkispólitíska hlið. Fyrst Jón Sigurðsson, síðan hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson í Blaðinu og nú Geir Haarde hafa í raun og veru lýst atburðarásinni þannig að fyrsti kafli hafi verið sá að í Hvíta húsinu hafi nafn Íslands verið sett á hinn fræga lista yfir viljugar þjóðir. Það fellur reyndar saman við atburðarásina eins og ég minnist hennar, sem var þannig að við heyrðum fyrst um þennan lista og um stuðning Íslendinga þvert á það sem utanríkisráðherra hafði látið í veðri vaka dögum áður frá blaðamannafundi í Hvíta húsinu þar sem blaðafulltrúinn Fleischer, sem þá var upplýsingafulltrúi Bush, lýsti þessu yfir. Þá kom fát á íslenska ráðamenn en að lokum tóku þeir undir þetta.

Ef þetta stenst þýðir það annaðhvort það að það er verið að kalla okkar menn druslur, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, að þeir séu þær druslur að hafa hlýtt skipunum, beinum fyrirmælum frá Washington, eða þá að það er verið að ásaka Bandaríkin um gróft brot á sjálfstæði og fullveldi Íslendinga með því að þeir taki ákvörðun (Forseti hringir.) fyrir okkar hönd.