133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:49]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er vægt til orða tekið að segja sem svo að þetta mál verði undarlegra með hverjum deginum sem líður, og eru þó tæplega fjögur ár liðin frá því að tveir menn í ríkisstjórn Íslands veittu pólitískan stuðning sinn, allan sinn stuðning, við innrásina í Írak og hafa varið hann þar til á laugardaginn var að formaður annars stjórnmálaflokksins dró í land. Svo segir hann núna að of mikið hafi verið lesið í orð sín.

Og enn ver formaður Sjálfstæðisflokksins stuðninginn og mun væntanlega gera það um aldur og ævi. Hann reynir hins vegar að gera lítið úr honum, þetta hafi allt saman verið einhver smáatriði, einhver tæknileg atriði. Hver voru þá mistökin sem formaður Framsóknarflokksins var að biðjast afsökunar á um helgina? Voru það einhver tæknileg mistök sem urðu á stjórnarheimilinu þegar veittur var fullur, 100%, pólitískur stuðningur við innrásina í Írak sem hefur verið varinn með kjafti og klóm síðan þar til það kom einhver smásvikkur á menn um helgina? Hingað til hefur hann verið varinn með kjafti og klóm, frú forseti.

Menn verða að fara að gera það upp við sig til hvers þeir studdu þessa innrás og allt sem henni fylgdi. Þeir verða að fara að skýra það út fyrir þjóðinni og gera sér grein fyrir því að það að amast ekki við því að fara á lista hinna vígfúsu þjóða þýddi í raun að þar var verið að gefa Bandaríkjastjórn og bresku ríkisstjórninni pólitískt vilyrði, pólitíska heimild, til innrásar vegna þess að þessa menn vantaði meiri hluta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þá vantaði meiri hluta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að fá stuðning við þessa innrás. Menn ættu kannski að setja það í samhengi við framboð (Forseti hringir.) Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.