133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

afgreiðsla mála fyrir jólahlé.

[10:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru ekki margir dagar þangað til þing á að ljúka störfum fyrir jól. Ef ég man rétt er talað um 8. desember, þ.e. föstudaginn eftir rétt rúma viku.

Við þingflokksformenn höfum ekki fengið neinar upplýsingar enn þá um það hvernig hæstv. forseti hyggst lenda þessu þinghaldi, ef svo má segja, hvaða mál stendur til að afgreiða héðan sem lög áður en Alþingi fer í jólafrí.

Við sjáum hins vegar að enn berast inn frumvörp, m.a. var nú í morgun dreift frumvarpi um svokallaðan matarskatt þar sem mér sýnist vera á ferðinni einhvers konar jólapakki ríkisstjórnarinnar í aðdraganda kosninga. Það er alger óþarfi að fara að sýsla eitthvað með það frumvarp núna því að nægur tími er til stefnu, ég fæ ekki betur séð af textanum en að hér séu ákvæði sem eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. mars á næsta ári.

Alþingi kemur saman í janúar þannig að okkur ætti að gefast góður tími til að afgreiða þetta mál þá með þinglegum hætti sem er okkur til sóma í staðinn fyrir að ætla að vinna í því með einhverjum bægslagangi núna á síðustu dögunum fyrir jólahlé.

Fjölmörg frumvörp hafa þegar verið afgreidd úr nefndum, stór frumvörp, en við höfum afskaplega takmarkaðar upplýsingar um það hvað eigi að gera við þessi mál núna áður en þing lýkur störfum fyrir jól. Það væri mjög gott að fá einhverjar upplýsingar um það frá hæstv. forseta hér og nú hvernig þinghaldi skuli haldið áfram eða þá að formenn þingflokka ættu fund strax með hæstv. forseta. Við gætum gert hlé á þingfundi og gert út um þetta þannig að við getum öll farið að leggja niður fyrir okkur og skipuleggja hvernig við hyggjumst haga störfum okkar hér á næstu dögum.