133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

afbrigði um dagskrármál.

[11:05]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan átta ég mig ekki alveg á því af hverju það liggur svona mikið á að taka þetta tiltekna frumvarp á dagskrá fyrir jól. Ég hreinlega sé enga ástæðu fyrir því og man ekki til þess að ég hafi fengið neinar skýringar hjá hæstv. forseta fyrir þessu, til að mynda á fundum með formönnum þingflokka. Við fáum engar upplýsingar um það hvernig þinghaldið verður hér næstu daga. Við vorum á fundi í gær, formenn þingflokka, og þar var okkur ekki tjáð að það mætti búast við kvöldfundi í kvöld. Hins vegar fengum við tölvupóst sendan á eftir okkur hvað það varðaði þegar fundinum með formönnum þingflokka var lokið.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta bendir ekki til mikillar auðmýktar eða samvinnuvilja stjórnarliða við stjórnarandstæðinga. Enn og aftur, ég sé ekki nein haldbær rök fyrir því að þetta frumvarp um matarskattinn verði tekið á dagskrá því að þessi lög eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. mars á næsta ári. Samkvæmt starfsáætlun þingsins kemur þingið að sjálfsögðu saman aftur eftir jól, í janúar, og þá munu okkur gefast einar 6–7 vikur að ég vænti til þess að fjalla einmitt um þetta mál.

Hér er einfaldlega á ferðinni frekar ódýrt áróðursbragð af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins konar jólapakki í aðdraganda kosninga sem hún ætlar að færa þjóðinni, og þess vegna grunar mig að þetta frumvarp um matarskattinn sé lagt fram einmitt á þessum tíma. Það leiðir líka kannski hugann frá ýmsum öðrum óþægilegum málum sem ríkisstjórnin þarf að kljást við. Við ræddum hér áðan Íraksmálið, og Ríkisútvarpsfrumvarpið bíður hér 2. umr. sem verður væntanlega mjög löng og mjög ströng. Þetta gæti kannski orðið til þess að dreifa athygli almennings frá þeim málum sem valda að sjálfsögðu ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum þó nokkru hugarangri þessa dagana, eins og við reyndar sjáum á því hvernig sambúðin er núna á stjórnarheimilinu, hvernig brestirnir á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks koma sífellt betur í ljós.

Virðulegi forseti. Við í Frjálslynda flokknum munum sitja hjá við afgreiðslu þeirra afbrigða sem hér verða greidd atkvæði um á eftir.