133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

afbrigði um dagskrármál.

[11:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Til þess að koma í veg fyrir að þetta þingmál komist á dagskrá þyrfti stjórnarandstaðan að greiða atkvæði gegn því að svo yrði. Við höfum marglýst því yfir, margir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, hér í dag að við erum því fylgjandi að taka brýn hagsmunamál til umræðu, þar á meðal þetta. Við viljum ræða um almannatryggingar og lagabreytingar á því sviði og sérstaklega það sem gæti orðið til hagsbóta öryrkjum og þeim sem standa höllum fæti í okkar samfélagi.

Það sem ríkisstjórnin á eftir að gera er að segja okkur frá forgangsröð sinni. (Gripið fram í: Nú, lækka matarverðið.) Hv. þingmaður spyr hver sé okkar forgangsröð. Hún er sú sem ég lýsti. Fyrir þinginu liggja ýmis mál frá stjórn og stjórnarandstöðu sem snerta almannahag í þessu landi (Gripið fram í: Þú ert bara að …) og ég kalla eftir því að ríkisstjórnin geri okkur og þjóðinni grein fyrir sinni pólitísku forgangsröð. (Gripið fram í.)