133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[11:48]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafði nú ekki mikið fyrir því að setja stöðu fjölskyldunnar í vítt samhengi. Hún kallaði eftir stefnu Framsóknarflokksins í málefnum fjölskyldunnar og staðreyndin er sú að barnabætur eiga að hækka á næsta ári um 25%, um 1,7 milljarða kr. Það er verið að lækka tekjuskattinn á fjölskyldurnar í landinu um 1%, en stjórnarandstaðan er reyndar á móti því að tekjuskatturinn verði lækkaður. Það er verið að hækka skattleysismörkin úr 78 þús. kr. upp í 90 þús. kr. Það er verið að lækka matarskattinn úr 14% niður í 7%. Þetta er stefna Framsóknarflokksins í skattamálum.

Jafnframt hefur verið unnið að vaxtabótamálum innan efnahags- og viðskiptanefndar. Nú voru lagðar til rúmlega 90 millj. kr. til aukinnar hækkunar. Ég þekki ekki í þaula þá vinnu sem þar fór fram en ég treysti þeim nefndarmönnum sem lögðu þar hönd á plóg til að standa vel að þeirri vinnu.

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður dró upp dökka mynd af stöðu íslenskra fjölskyldna þrátt fyrir að kaupmáttaraukningin hafi hvergi verið eins mikil og á Íslandi með hliðsjón af þeim löndum sem við berum okkur saman við. Kaupmáttaraukningin á þessu ári hjá heimilunum, ráðstöfunartekjur fjölskyldnanna, aukast um 5,6% á þessu ári, munu aukast um rúmlega 5% á næsta ári ef spár ganga eftir og um rúm 2% á árinu 2008. Við ætlum því að halda áfram á þessari braut, að minnka álögur á fjölskyldurnar í landinu. Við ætlum að lækka skatta og láta fjölskyldurnar í landinu njóta þeirrar gríðarlega sterku stöðu sem ríkissjóður býr nú við.

Við ætlum að halda áfram á þessari braut en ég vek sérstaka athygli á því að hv. þingmaður benti ekki á eitt einasta jákvætt atriði sem ríkisstjórnin hefur unnið að til að bæta hag fjölskyldnanna í landinu. Hún fann eitt strá til þess að hengja sig á en horfði ekki á heildarsamhengi hlutanna.