133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[11:51]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson svaraði ekki spurningunni sem ég lagði upp með í ræðu minni varðandi vaxtabæturnar. Hann svaraði ekki á hvaða ferðalagi Framsóknarflokkurinn væri varðandi vaxtabæturnar og hverju hinar skipulegu skerðingar sættu. Hann svaraði því ekki. Í stað þess nefnir hann dæmi um hvar ríkisstjórnin hefur hækkað framlög.

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi barnabæturnar. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér þykir hann ansi brattur að nefna barnabæturnar og að þar sé verið að gefa í. Það er vissulega rétt en þessi ríkisstjórn hefur beitt þeim vinnubrögðum að skerða fyrst harkalega framlögin og koma síðan með hluta af því til baka rétt fyrir kosningar. Þetta eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, að skerða fyrst harkalega og koma síðan með hluta til baka. Ég vil í þessu samhengi spyrja hv. þingmann hvar barnakort Framsóknarflokksins eru. Þau er ekki að finna hér. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði drýgindalega um skatta og lækkun á þeim. Við vitum hvernig þróunin á skattbyrðinni hefur verið á undaförnum árum. Það hefur komið fram í svari frá fjármálaráðuneytinu að eingöngu 10 prósentin sem hæstar hafa tekjurnar búa við lægri skattbyrði. Þannig hafa skattalækkanir ríkisstjórnarinnar skilað sér til heimilanna í landinu. Þær hafa skilað sér með aukinni skattbyrði vegna þess að skattleysismörkin hafa nánast staðið í stað á sama tíma. Það sem skila á til baka í hækkun á persónuafslætti er eingöngu brot af því sem ætti að vera ef persónuafslátturinn hefði verið látinn fylgja t.d. launaþróun.