133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[11:55]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var aumt yfirklór með vaxtabæturnar. Ég benti á þá staðreynd að bara á þessu kjörtímabili, það er mjög eðlilegt að miða bara við þetta kjörtímabil, hefur ríkisstjórnin skert vaxtabætur og mun niðurstaðan úr því verða 1 milljarður í mínus á næsta ári. Vaxtabæturnar ættu að vera 6,5 milljarðar á næsta ári ef þær hefðu haldið sér frá árinu 2003 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Það mjög eðlilegt að miða við það ártal.

Hv. þingmaður er eitthvað viðkvæmur fyrir því að ég velji ártalið 2003 sem viðmiðun en það er ekki óeðlilegt vegna þess að þá tók þessi ríkisstjórn við.

Ég lýk með því að spyrja: Hver verður útkoman þegar þessi ríkisstjórn hefur setið sín fjögur ár? Hún verður milljarður í mínus. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Hún verður ekki bara milljarður í mínus heldur eru það 226 milljónir af krónutölu. Stjórnarliðar koma upp og halda því fram að verið sé að auka við vaxtabætur og barnabætur og ég veit ekki hvað og hvað, meðan í raun er aðeins verið að skila til baka örlitlum hluta af harkalegum skerðingum.

Frú forseti. Það er ekki hægt að halda svona blekkingatali áfram. Auðvitað sér fólk í gegnum þetta vegna þess að hver einasta fjölskylda í landinu hefur fundið fyrir þessu. Fólk finnur þetta þegar vaxtabæturnar koma og eins við greiðslu á barnabótunum.

Frú forseti. Barnakort Framsóknarflokksins eru að hluta komin til framkvæmda. Það má vel vera. En að bjóða upp á að hér sé eingöngu ótekjutengt upp að sjö (Forseti hringir.) ára aldri er ekki nóg. Þar eru svik á loforðum Framsóknarflokksins.