133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[13:50]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir þetta langa mas hv. þingmanns er mér dálítil spurn. Það er vissulega þannig að menn geta deilt um marga hluti. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvernig ber að setja hluti fram og hvernig ber að vinna að hlutum. Það er hið eðlilegasta.

En það sem ég skil ekki við þessi ræðuhöld er hvaða nauð rak hv. þingmann til að viðhafa þetta orðbragð? Hvenær í veröldinni skyldi það hafa gerst, virðulegi forseti, að ég hafi staðið upp og hælt mér af góðverkum? Því í ósköpunum getur hv. þingmaður staðið hér upp og sagt þetta aftur og aftur? Getur hann fundið orðum sínum stað? Ég á ekki von á því en ég bið hv. þingmann að gera það því ég kann ekki við svona. Mér finnst þetta mjög óviðkunnanlegt.

Ég veit ekki hvað ég hef unnið til þess að vera nafngreindur æ ofan í æ og sagt að ég tilheyri þeim þingmönnum sem alltaf lyppist niður. Síðan er maður nafngreindur aftur og sagt að þingmaðurinn eigi að skammast sín fyrir slæleg vinnubrögð. Nefndur aftur og aftur, mennirnir sem lúffa alltaf. Hafa ekki döngun í sér. Hvaða nauð rekur hv. þingmann til að tala svona um samstarfsmenn sína í fjárlaganefnd sem hann er að vinna með? Telur hann sig hafa einhvern hag af því? Telur hann að það sé einhverjum til fremdar þó hann haldi því fram að við séum einhverjar druslur?

Ég trúi því ekki að menn þurfi að hafa svona orðbragð. Ég vil ekki trúa því og ég spyr hv. þingmann: Af hverju gerir hann þetta? Sér hann ekki ástæðu til þess að draga í land og biðjast afsökunar á því?