133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[13:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson situr á þingi sem þingmaður og er jafnframt talsmaður Sjálfstæðisflokksins í fjármálum og er varaformaður fjárlaganefndar.

Þegar ég hef nefnt þingmanninn hefur það ávallt verið sem þingmaður eða varaformaður viðkomandi nefndar varðandi störf hans eins og þau birtast á Alþingi. Ég ber mikla virðingu fyrir persónunni Einari Oddi Kristjánssyni. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er með skörulegri, málefnalegri og harðdrægari málsvörum ríkisstjórnarinnar og einnig andstæðingur hennar í ýmsum málum.

En ég spyr þingmanninn á móti: Hvað réð því þegar hv. þingmaður greiddi atkvæði gegn því í fyrrahaust, við afgreiðslu fjárlaga, að Landspítali – háskólasjúkrahús fengi 1 milljarð sem var fyrirsjáanlegt að vantaði? Og að elli- og hjúkrunarheimilin fengju það fjármagn sem þar þurfti til? Að Háskólinn á Akureyri fengi það fjármagn sem þurfti til og var fyrirsjáanlegt og lágu tillögur um og allir sáu að var fyrirsjáanlegt? Hvað kom til að þingmaðurinn felldi það? Að kröfu hvers? Við í fjárlaganefnd vorum allir sammála um að þetta fjármagn þyrfti. En hvers vegna voru þá tillögurnar felldar?

Svo koma þær núna inn sem fjáraukalög. Gott og vel. En þær áttu að koma inn sem fjárlög. Þeir þingmenn sem felldu þær þá gegn betri vitund eða gegn upplýsingum að minnsta kosti sem lágu þá fyrir um að þær gengju ekki upp — ég veit ekki af hverju þeir greiddu þá atkvæði gegn þeim þegar þeir vissu að þetta mundi koma (Forseti hringir.) hvort eð var.