133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er farinn að draga í land og viðurkenna að það sé í sjálfu sér (Gripið fram í.) stórmál hvernig að íslenska ríkið er rekið, að það sé ekkert smámál ef viðskiptahallinn eykst um 200 milljarða kr. og þó að sé spurt. En af því að hv. þingmaður vék að hallanum, þá man ég ekki betur en Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri hafi á sínum tíma varað við þessu og sagt að þetta mundi gerast ef stóriðjuframkvæmdirnar og skattalækkanirnar héldu áfram. Ég man ekki betur og get vísað til þess.

Hitt sem ég ætla að leiðrétta hjá þingmanninn er þegar hann sagði að fjárlög væru spár. Tekjuhliðin er almennt spá en þó út frá þeim miklu forsendum sem til eru. En fjárlög fyrir einstakar stofnanir og verkefni eru ekki spár (Gripið fram í.) heldur til reksturs sjúkrahúsa, skóla, meira að segja er sett í verklagsreglur að ef vikið er 3 eða 4% frá þeirri tölu sem gefin er upp í fjárlögum skuli kalla viðkomandi forstöðumann fyrir og hann spurður út í það. Er þá ekki eins gott að fjárlögin séu rétt unnin? (Gripið fram í.) Fjárlögin eru ekki spár. En það er kannski nýtt fyrir forstöðumenn sjúkrahúsa og skóla að heyra að sú tala sem er ætluð í kostnað hjá þeim sé bara spá, svo ráði þeir hvað þeir gera. Það er bara ekki svo. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal verði að setja sig betur inn í fjárreiðulögin áður en hann blandar sér í umræðuna með þessum hætti.