133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:56]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir ágætt samstarf í nefndinni á þessu hausti þótt okkur greini á um margt í frumvarpinu sem hér er rætt um.

Hv. þingmanni var tíðrætt um matarskattinn eins og mörgum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Á þessu kjörtímabili hafa hv. þingmenn talað sem svo liti út sem framsóknarmenn hafi sérstaklega viljað koma í veg fyrir að virðisaukaskattur á matvælum yrði lækkaður.

Ég minni hv. þingmann á að það hefur verið stefnumið framsóknarmanna, samþykkt á flokksþingum framsóknarmanna, að stefna að því að lækka virðisaukaskatt af matvælum. Við þingmenn Framsóknarflokksins höfum hins vegar sagt að við þyrftum að fara varlega í skattalækkanir til að geta staðið undir öflugu velferðarkerfi.

Nú er ljóst að ríkissjóður er það sterkur og afgangur af rekstri ríkissjóðs það mikill að við höfum svigrúm til að fara út í frekari skattalækkanir. Matarskatturinn verður lækkaður 1. mars á næsta ári, sem mun þýða verulega kjarabót fyrir heimilin í landinu, lægri verðbólgu og umfram allt munum við halda áfram á þeirri braut að bæta hag allra landsmanna. Þetta kemur ekki síst þeim tekjulægstu til góða auk þess sem við ætlum að stórhækka skattleysismörk, stórhækka barnabætur til lágtekju- og millitekjufólks um 25% og lækka tekjuskattsprósentuna.

Unnið er að því á ýmsum sviðum að bæta kjör fjölskyldnanna í landinu, ekki síst þeirra sem lægstar tekjur hafa enda munu skattleysismörk hækka verulega um næstu áramót. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut að auka kaupmátt, ekki síst þeirra sem lægstar tekjurnar hafa (Forseti hringir.) enda bera tillögur ríkisstjórnarinnar þess merki.