133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:58]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður virðist eitthvað hafa ruglast í ríminu áðan þegar hann fór að rifja upp gömul slagorð Framsóknarflokksins. En það sem hann nefndi áðan hefur nú ekki verið sérstakt slagorð Framsóknarflokksins svo ég muni eftir. (Gripið fram í: Þetta er nýja slagorðið.) En ég er nú reyndar ungur að árum þannig að það er kannski ekki að marka.

Hæstv. forseti. Ég vil bara benda á það enn og aftur að eins og við höfum rætt á kjörtímabilinu þá hefur Samfylkingin verið með eintóm yfirboð í skattamálum. Við höfum reiknað þau upp á tugi milljarða í sumum tilfellum, þær tillögur sem Samfylkingin hefur komið með. Við framsóknarmenn leggjum áherslu á að nauðsynlegt er að standa undir öflugu velferðarkerfi í landinu og menn þurfa að hugsa sinn gang þegar teknar eru ákvarðanir um skattalækkanir.

Nú hef ég fullvissu fyrir því, í ljósi sterkrar stöðu ríkissjóðs, að við getum hvort tveggja, bætt velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfið og einnig farið í ákveðnar skattalækkanir, hækkun á persónuafslætti, hækkun á barnabótum og svo má áfram telja.

En það er nauðsynlegt að þetta haldist í hendur, að við höfum svigrúm til að sinna heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Það getur verið að einstaklingar innan Samfylkingarinnar vilji minnka samneysluna og minnka framlög til ákveðinna þátta í þessum málaflokkum. Það hefur ekki verið og er ekki stefna Framsóknarflokksins.

Við höfum varað við því að fara of geyst í skattalækkanir. Við þurfum að hafa borð fyrir báru til að standa undir mikilvægum þáttum í velferðarþjónustunni. Það er ljóst að sterk staða ríkissjóðs gerir það að verkum að við getum bæði aukið kaupmátt heimilanna en líka staðið vörð um heilbrigðiskerfið, félagskerfið og menntakerfi landsins.