133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:18]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var vitni að viðtölum bæði í sjónvarpi, útvarpi og blöðum við Landssamband eldri borgara og ríkisstjórnina um það samkomulag sem gert var. Ég var vitni að því. Það lýstu allir yfir mikilli ánægju sinni.

Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður sagði að á fund fjárlaganefndar kom stjórn þessa landssambands og sagði frá því, því miður, að formaður þessarar nefndar, samninganefndarinnar, aðspurður hver það hafi verið, hefði kúgað þá, eins og hann orðaði það, til þess að skrifa undir. Hann var spurður að því hver hefði gert það. Jú. Það var formaðurinn, en formaðurinn heitir Ásmundur Stefánsson.

Ég lít á þau ummæli sem hörmuleg vegna þess að ég veit að þau eru eintómur rógur og ósannindi. Ég þekki Ásmund Stefánsson og ég veit það vel og er tilbúinn að leggja höfuð mitt að veði fyrir því að aldrei nokkurn tíma mundi sá maður (Gripið fram í.) hafa kúgað eldri borgara, kúgað þá til að skrifa undir. Þetta var ómerkilegt, verulega ómerkilegt. Það er alveg sama hvort menn eru ungir eða gamlir, það er jafnvítavert, alveg sama á hvaða aldri þeir eru, að fara svo með hlutina.

Við vitum að það var bara boðið betur. Það var boðið betur og þá var fyrri samningi afneitað. Fyrri samningi var afneitað af því það var boðið betur. Það voru boðnar 7.500 kr. millj. betur. Það var yfirboð og þá var ákveðið að hafna því samkomulagi sem menn höfðu lýst yfir opinberlega að þeir væru mjög ánægðir með. Það er hægt að kalla það samkomulag smánarbætur, 5.500 millj. sem er mesta hækkun í sögu lýðveldisins. Ef menn hafa smekk fyrir því að kalla það smán þá gera þeir það. En um þetta var samið. Yfir þessu lýstu menn ánægju alls staðar. Þannig stendur það þó menn hafi talið rétt og viljað heldur afneita því síðar þá er það þeirra vandamál og þeim til smánar.