133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi verð ég að víkja að þeim orðaskiptum um það hver hafi opinberlega kúgað eldri borgara til samnings. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hér og reynir að varpa því á formann nefndarinnar, Ásmund Stefánsson. Þær upplýsingar sem ég hef eru að það hafi verið eftir tilskipun frá ráðherra, enda hvaðan kæmu tilskipanir annarra um það hve langt skuli ganga í samningum en frá ráðherra og ríkisstjórn? Það er mjög aumt að ætla að varpa því frá þeim sem raunverulega bera ábyrgð. Ég trúi ekki að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ætlist til þess.

Hins vegar verðum við að víkja aftur að því sem hv. þingmaður kom inn á, þ.e. að ríkissjóður stæði óvenjuvel og að tekjuafgangur hefði verið á þessu ári. Vonandi stendur ríkissjóður vel áfram að minnsta kosti á næsta ári ef skynsamlega verður haldið á málum og enn þá betur á þarnæstu árum ef við skiptum um ríkisstjórn. Þá verður tekjugrunnur ríkisins betri og raunsannari.

En er þá ekki einmitt rétt núna við þessar aðstæður að leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega og eldri borgara sem um munar sem hafa svo sannarlega dregist aftur úr á undanförnum árum miðað við aðra í þjóðfélaginu? Menn hafa minnst hér á skattleysismörkin o.s.frv. Við höfum áður rakið tengingarnar við allar mögulegar tekjur. Þær skerða lífeyrinn.

Við hv. þingmaður erum báðir fylgjandi því að fólk geti unnið sem lengst og lagt þjóðarbúinu til með verkum sínum, höndum og hug. Því leggjum við til að frítekjumarkið verði hækkað, já, vegna atvinnutekna í 75 þús. kr. á mánuði strax. Hverjar voru tillögur ríkisstjórnarinnar? Þær voru um 200 þús. kr. á ári árið 2009. Var það ekki eða hvað? Þeir eru að vísu núna (Forseti hringir.) búnir að renna á rassinn með það sem betur fer.