133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:25]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á fundi fjárlaganefndar var stjórn eldri borgara innt eftir því hver hefði kúgað þá. Svarið var: Formaður nefndarinnar. Ég hef þetta bara beint eftir þeim. Það voru 20–25 manns inni á þessum fundi. Formaður nefndarinnar. Þannig var það sagt og ég hef enga ástæðu til að rengja það. Maðurinn vildi meina svo að ætti það vera.

Ég ætla að leyfa mér að fara í gegnum það að samkvæmt núgildandi lögum hækka örorkubætur og ellilífeyrisbætur samkvæmt almennri launaþróun. Það hefur fylgt henni nákvæmlega í mörg ár og enginn hvikað frá því.

Ég ætla líka að segja frá því sem liggur alveg fyrir: Við erum að leggja hér til við fjárlagafrumvarp fyrir 2007, 5.500 millj. kr. hækkun á almannatryggingum sem er að raungildi rúmlega 10%. Ég tel það vera mjög gott. Við megum að þakka fyrir ef það tekst. Það er mikil bjartsýni á bak við þá tölu. Ég fullyrði að hitt er eingöngu yfirboð, yfirboð stjórnarandstöðunnar að telja sig geta farið upp í raunhækkun á þessu upp í 25% á milli ára. Það er bara yfirboð. Það er bara skrum.