133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:29]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður fór hér nokkuð yfir þær leiðréttingar sem gerðar væru á vanda ýmissa heilbrigðisstofnana. Ég átti nú von á því að hv. þingmaður mundi að einhverju leyti svara þeim spurningum sem ég beindi til meiri hluta fjárlaganefndar um það hvernig á því stæði að enn þann dag í dag væri farið mjög á skjön við fjárreiðulög, hvort það væri vegna þess að meiri hlutinn treysti sér ekki til að fara að lögum eða vegna þess að meiri hlutinn teldi eðlilegt að fara á skjön við lögin, eða að meiri hlutinn teldi að lögin væru bara þannig gerð að eftir þeim væri ekki hægt að fara. Í framhaldi af því spurði ég hvernig á því stæði að meiri hlutinn kæmi þá ekki með einhverjar tillögur um breytingu á lögunum. En það er athyglisvert að nú er — ég þori nú ekki að fullyrða sem aldrei fyrr — en það hefur ekkert dregið úr þeim vana meiri hlutans að fara mjög á skjön við fjárreiðulögin.

Ég veit ekki hvort það var þetta sem hv. þingmaður vildi kalla mas. En það kæmi mér út af fyrir sig ekkert á óvart að þetta væri flokkað undir það vegna þess að ekki virðist vera nokkur leið að fá hv. þingmenn meiri hlutans til að fara í efnislega umræðu af þessum toga. Það er eins og meiri hlutinn hafi engan áhuga á að bæta þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í þessum efnum.

Mér sýnist því miður að ef ég fæ ekki svör frá hv. þingmanni um þessa þætti þá sé það hreinlega staðfesting á því að áhugi er ekki fyrir hendi til að reyna að ná tökum á ríkisfjármálunum.