133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:33]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Því miður bárust engin svör, það er rétt hjá hv. þingmanni. Hins vegar höfum við verið allan þann tíma sem við höfum setið saman í fjárlaganefnd verið að kljást við svipaðan vanda gagnvart heilbrigðiskerfinu og víða hafa menn náð ágætum árangri. En hluti af vandanum og hluti af því að farið er á skjön við fjárreiðulögin er að það er ekkert samhengi í hlutunum. Nú er verið að bæta stöðu ýmissa stofnana, eins og hv. þingmaður kom inn á, en það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að grunni stofnananna verði breytt í fjárlögum næsta árs. Það eru því allar líkur á að næsta haust eða þarnæsta haust verði vandinn kannski svipaður vegna þess að ekki er verið að taka á meginhluta vandans.

En meginspurning mín til hv. þingmanns var þessi: Hvernig stendur á því að enn þann dag í dag er farið á skjön við fjárreiðulögin? Hver er ástæðan fyrir því? Ætlar hv. þingmaður enn einu sinni að víkja sér undan að svara hvernig á því stendur að meiri hluti fjárlaganefndar treystir sér ekki til að fara að fjárreiðulögum? Hvernig stendur þá á því, ef það er ekki hægt að þeirra mati, af hverju koma þeir þá ekki með breytingar á fjárreiðulögunum þannig að hægt sé að fara eftir lögunum?