133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:34]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil bara ekki spurninguna. Ég veit ekki betur en við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur á umliðnum árum til að hafa fjárlögin svo rétt sem við best vissum. Við höfum bara ekki ráðið við þróunina. Ég var að segja frá því réttilega að við höfum gert allt sem við höfum getað til þess og við ætlum að halda því áfram. Það er þó verið að vinna mjög markvissa og góða vinnu í heilbrigðisráðuneytinu og við höfum lofað heilbrigðisráðuneytinu að vera með þeim núna strax eftir áramótin og halda áfram þeirri vinnu. Ég efast ekki um að stjórnarandstaðan mun taka þátt í því með okkur. Það er nauðsynlegt. En þetta er ekki einfalt. Ef við finnum einhverja einfalda formúlu til að gera þetta þá mundum við flytja hana út um allan heim vegna þess að kostnaður við heilbrigðisþjónustuna er hlutur sem allar vestrænar þjóðir eru að glíma við og tekst nú mismunandi vel til. Við erum ekki ein í þessu vandamáli. Þau eru þekkt alls staðar.