133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú þannig með Barðaströndina að þar standa strengir út úr öllum fjörðum í norðaustanátt en þó missterkir. Það getur oft verið æðisterkur strengur út úr Vatnsfirði og þó að fjörðurinn sé ekki mjög langur er dalurinn mjög langur. Þarna er oft það sterkt veður að það er ekki auðvelt að fara upp að bryggjunni vegna þess hvernig þetta skip er hannað til að taka lendingu við þessa bryggju. Eldri Baldur var þannig hannaður að hann sigldi upp með bryggjunni með stefnið á undan. Þessi ferja bakkar upp að bryggjunni og það er náttúrlega dálítið annar handleggur fyrir utan það að eldri Baldur var sennilega einum 12–14 metrum styttri en sá sem nú er, ef ég man rétt.

Ég sé því ekki, hæstv. forseti, ef maður lítur alveg raunsætt á málið, að það dugi neitt annað ef á að leysa þetta mál en að reka niður viðbótarstálþil og lengja bryggjuna um 15–20 metra. Ég hygg að endi bryggjunnar þyrfti að vera rúnnaður eins og víða er gert í hafnarinnsiglingum, þannig að skip geti komið að bryggjunni með mismunandi stefnu eftir vindi og fært sig svo upp með henni. Bráðabirgðalausnir í þessu efni duga ekki neitt. Menn verða einfaldlega að reka niður stálþil og gera það sem allra fyrst, og fylla upp í það, ella (Forseti hringir.) munu verða mjög stopular ferðir yfir Breiðafjörð.