133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[17:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spurðist fyrir um það í ræðu sinni í dag hvernig tryggja mætti endurbætur á hafnaraðstöðu vegna siglinga Breiðafjarðarferjunnar Baldurs, þá sérstaklega vegna þess að nú er þar komin ný og stærri ferja sem þarf betri hafnaraðstöðu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu sem sýnir kannski að það er vaxandi áhugi á siglingum ferjunnar og þeirri þjónustu sem hún sinnir. Eins og fram kom hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni er Klettshálsinn ófær um þessar mundir og við finnum það að sjálfsögðu þegar veður verða verri yfir vetrartímann og ófærð er á veginum um Barðaströnd hversu mikilvægt það er að ferjan geti sinnt þessari þjónustu.

Það hefur legið fyrir að bæta þyrfti hafnaraðstöðuna. Það var lagt fyrir hafnaráð og í framhaldi af umfjöllun þess um málið lá fyrir að kostnaður vegna endurbóta á hafnaraðstöðunni bæði á Brjánslæk, í Flatey og Stykkishólmi væri hluti af kostnaði við hafnargerð þar vegna ferjunnar. Í því ljósi hefur verið unnið. Hvað varðar aðstöðuna í Stykkishólmi var strax brugðist við þar og farið í endurbætur. Gert er ráð fyrir að þær verði einhverjar til viðbótar. Þar hafa stjórnendur ferjunnar ekki talið teljandi vandkvæði, hvorki við að leggjast að né fara frá. Í Flatey hins vegar er gömul timburbryggja sem ferjan hefur lagst upp að og það er alveg ljóst að þar þarf verulegra endurbóta við, og sömuleiðis á Brjánslæk.

Siglingastofnun hefur unnið að athugun og útfærslum á endurbótum þarna og að þeim verður unnið áfram. Hafnarstjórnirnar þurfa auðvitað að koma þar að, bæði í Vesturbyggð, Reykhólasveitinni og Stykkishólmsbæ. Ég veit ekki annað en að bæði heimamenn og Siglingastofnun geri sér fulla grein fyrir því hvað er nauðsynlegt að gera þarna og samgönguráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á og ég hef gefið um það fyrirmæli að fundnar verði leiðir til að bæta þar úr. Við erum að endurskoða samgönguáætlunina og hafnahluta hennar og gerum ráð fyrir því að það fjármagn sem þarf til þess að standa að endurbótunum verði tekið af þeim fjármunum sem fjárlög gera ráð fyrir á næsta ári, og eftir atvikum ónýttar fjárveitingar á þessu ári, til þess að hægt verði að ljúka því sem þarf að gera þarna. Ég sé því ekki að fjárskortur eigi að koma í veg fyrir framkvæmdir hvað þetta varðar.

Þetta er sú lína sem samgönguráðuneytið hefur lagt mjög skýra, þ.e. að það á að gera þær endurbætur sem nauðsynlegar eru. Hins vegar, eins og kom fram í umræðum hjá hv. þingmönnum, sem voru raunar lærðar umræður um hönnun hafnarmannvirkja að hluta til, er að ýmsu að hyggja. Það er náttúrlega ekki auðvelt að leggjast upp að, eins og á Brjánslæk í ofsaveðri þannig að það verður vart búið svo um hnúta að hægt sé að sigla í hvaða veðri sem er. Engu að síður þarf að framkvæma þarna endurbætur og að því er unnið og Siglingastofnun hefur það verkefni á sinni könnu í samstarfi við heimamenn.

Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi hér fram. Að öðru leyti þakka ég þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er gagnleg og það er gott að hv. þingmenn fari yfir þessa þætti eins og annað, þ.e. það sem snýr að samgöngumálum.