133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[18:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir að bregðast við og ræða þessi mál varðandi ferjuaðstöðu Breiðafjarðarferjunnar Baldurs, bæði í Stykkishólmi, Flatey og ekki hvað síst á Brjánslæk.

Eins og nú er hafa ferðir fallið niður, í líklega eina fimm daga á skömmum tíma, vegna þess að ekki hefur verið hægt að lenda á Brjánslæk. Þótt menn hafi vænst þess þegar hin nýja ferja var keypt að ekki þyrfti að ráðast strax í brýnar hafnarbætur á Brjánslæk til að hægt yrði að halda uppi eðlilegum siglingum er raunin önnur. Ferjusiglingar yfir Breiðafjörð eru gríðarlega mikilvægar fyrir allt atvinnulíf á Vestfjörðum og fyrir samskiptin bæði hvað fólk og flutninga varðar á milli Snæfellsness, Vesturlands og til Suðurfjarða.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji ekki svara nákvæmar hvernig brugðist verður við fyrirsjáanlegum erfiðleikum við lendingar á Brjánslæk. Auðvitað koma hin verstu veður og það er ekkert hægt að gera en eins og nú hefur verið undanfarna daga hefði alveg verið hægt að sigla yfir fjörðinn en vegna þess að hafnaraðstaðan á Brjánslæk er ekki nægilega góð og fullkomin hefur skipið ekki getað lagst að. Ég hef lagt það til að það verði strax gripið til aðgerða og (Forseti hringir.) undirbúnar framkvæmdir sem duga.